Landsliðsframherjinn Jón Daði Böðvarsson bjargaði stigi fyrir Reading er hann jafnaði metin undir lokin í 1:1 jafntefli liðsins við Hull í ensku B-deildinni í dag.
Jón Daði kom inn sem varamaður á 76. mínútu og nýtti heldur betur tækifærið en markið skoraði hann á 89. mínútu er hans annað á leiktíðinni. Reading hefur 9 stig í 18. sæti deildarinnar.
Aron Einar Gunnarsson fór út af á 90. mínútu í 2:1 sigri Cardiff á Sunderland. Cardiff hefur 20 stig í 1.-3. sæti ásamt Leeds sem vann Ipwich 3:2 og Wolves sem vann Barnsley 2:1. Leeds er á toppnum á hagstæðustu markatölunni.
Hörður Björgvin Magnússon heldur áfram að vera í frostinu í deildarkeppninni hjá Bristol City sem gerði markalaust jafnteli við Norwich. Hörður var allan tímann á bekknum og hefur ekki fengið að leika eina einustu mínútu á þeim vettvangi en liðið hefur 14 stig í 8. sæti deildarinnar.