„Nú fer ég ekki neitt“

Birkir Bjarnason hefur nýtt tækifærið sitt vel í liði Aston …
Birkir Bjarnason hefur nýtt tækifærið sitt vel í liði Aston Villa í síðustu leikjum. Ljósmynd/avfc.co.uk

„Fyrir ekki nema 2-3 vikum var ég mjög viss um að ég myndi fara, og vildi hreinlega fara, en nú er ég alveg hættur við það. Nú fer ég ekki neitt,“ segir Birkir Bjarnason, landsliðsmaður í knattspyrnu, við Morgunblaðið með áherslu í röddinni.

Birkir ætlar að halda kyrru fyrir í Englandi hjá hinu sögufræga liði Aston Villa, en fyrr í þessum mánuði leit út fyrir að hann væri á förum til Ítalíu. Birkir hafði þá lítið sem ekkert fengið að spila hjá Villa í vetur, undir stjórn knattspyrnustjórans Steve Bruce, en Bruce hefur nýtt krafta Íslendingsins undanfarið og hrósaði honum í hástert eftir 3:1-sigur á Barnsley um helgina. Birkir lék allar 90 mínúturnar í leiknum en þetta var þriðji deildarleikur hans í byrjunarliði á tímabilinu.

„Ég er búinn að spila núna fjóra síðustu leiki, en fyrir það hafði ég ekki spilað í mjög langan tíma. Þetta lítur mjög vel út núna. Það hefur gengið ótrúlega vel, bæði hjá mér og liðinu, og ég er bara verulega bjartsýnn,“ segir Birkir, en hann hafði verið orðaður við ítölsku félögin Parma og Spal. Aðspurður hvort hann hafi hreinlega verið á leiðinni í annað félag segir Birkir:

„Þetta var alveg komið á ákveðinn rekspöl. Ég veit að umboðsmaðurinn var byrjaður að ræða við ákveðin félög og undirbúa hvað við myndum gera ef af því yrði. En það að vera í Aston Villa er það besta fyrir mig. Þetta er risaklúbbur á Englandi, og það er sérstaklega gott að vera hérna þegar það gengur svona vel eins og undanfarnar vikur. Vonandi getum við farið upp í úrvalsdeildina. Það yrði alveg frábært.“

Nánar er rætt við Birki Bjarnason í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka