„Þetta voru mjög góðar fréttir“

Hörður Björgvin Magnússon og félagar hans í landsliðinu fagna sigurmarki …
Hörður Björgvin Magnússon og félagar hans í landsliðinu fagna sigurmarki Harðar gegn Króatíu síðasta sumar. Ísland og Króatía mætast aftur á HM í Rússlandi í júní. mbl.is/Golli

„Þetta leit ekki vel út þegar þetta gerðist, en þegar beinið hrökk aftur í lið þá gat ég labbað og útlitið varð bjartara,“ segir Hörður Björgvin Magnússon, landsliðsmaður í knattspyrnu, en svo virðist sem hnémeiðslin sem hann varð fyrir um helgina séu ekki alvarleg.

Hörður meiddist í leik með liði sínu Bristol City og meiðslin gerðu það að verkum að hann gat ekki ferðast með öðrum landsliðsmönnum frá Englandi í morgun, vegna landsleikjanna við Mexíkó og Perú í Bandaríkjunum. Ísland mætir Mexíkó aðfaranótt laugardags að íslenskum tíma, og Perú fjórum dögum síðar.

„Ég fór í skanna í morgun. Ég fékk mjög góðar niðurstöður, og hitti svo samstundis sérfræðing sem mældi mig út og taldi mig hafa verið mjög heppinn. Hann sagði að ég hefði verið heppinn með að fara úr lið og aftur í lið, án þess að eyðileggja neitt. Það eru því góðir möguleikar á að ég verði ekki lengi frá, ég get farið að styrkja hnéð strax og er jafnvel leikfær strax, segir hann [sérfræðingurinn]. Það er samt auðvitað bara í höndum þjálfara og sjúkraþjálfaranna í landsliðinu að meta hver staðan mín nákvæmlega er, en þetta voru mjög góðar fréttir,“ segir Hörður við mbl.is. Segir hann að beinið sem færst hafi til en fallið aftur á sinn stað sé svokallað dálkshöfuð, sem liggi við hnéð utanvert.

„Það teygðist á einhverju liðbandi við þetta, en ekki mikið, og ég á að geta æft á næstu dögum án þess að þurfa að vera hræddur við eitthvað. Ég er bara á leiðinni á flugvöllinn og upp í vél, en það er ekki orðið alveg ljóst hvenær flugið verður út af þessari töf,“ segir Hörður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka