Alex Oxlade-Chamberlain, leikmaður Liverpool, hefur leikið sinn síðasta leik á þessu tímabili jafnt með Liverpool og enska landsliðinu vegna þeirra meiðsla sem hann varð fyrir í 5:2-sigri liðsins gegn Roma í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í gærkvöldi.
Liverpool staðfesti á heimasíðu sinni nú undir kvöld að Oxlade-Chamberlain hefði skaddað krossband í hné, en ekki væri hægt að gefa út nú hversu lengi hann yrði frá. Ekki er ljóst hvort krossbandið er aðeins skaddað eða einnig slitið.
Hvort sem verður þá er ljóst að hinn 24 ára gamli Oxlade-Chamberlain verður frá vellinum næstu mánuði og mun ekki geta komið til greina í enska landsliðshópinn fyrir heimsmeistaramótið í Rússlandi næsta sumar.