Íslenski landsliðsmaðurinn Jón Daði Böðvarsson skoraði fyrsta mark keppnistímabilsins í ensku B-deildinni í knattspyrnu þegar hann kom Reading yfir gegn Derby County í kvöld.
Jón skoraði laglegt mark með föstum skalla eftir fyrirgjöf frá vinstri á 52. mínútu en Jón var í byrjunarliði Reading. Derby var hins vegar ekki lengi að jafna og það gerði Mason Mount á 60. mínútu.
Ekki var útlit fyrir að fleiri mörk yrðu skoruð en Derby tókst þó að tryggja sér góðan 2:1 útisigur, leikið var á heimavelli Reading. Tom Lawrence skoraði sigurmarkið þegar fjórar mínútur voru liðnar af uppbótartíma en þá var Jón Daði farinn af velli en honum var skipt út af eftir 75 mínútur.
Um var að ræða fyrsta leikinn í deildinni á nýju keppnistímabili og skoraði Jón Daði því fyrsta markið í deildinni.