Gylfi braut ísinn gegn Rotherham

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sitt fyrsta mark á leiktíðinni í …
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sitt fyrsta mark á leiktíðinni í kvöld gegn Rotherham. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson braut ísinn í markaskorun á þessari leiktíð þegar hann kom Everton yfir gegn B-deildarliði Rotherhan í 2. umferð enska deildabikarsins í knattspyrnu á Goodison Park í kvöld.

Gylfi kom Everton yfir á 28. mínútu en þetta var hans fyrsta mark fyrir Everton á leiktíðinni. Dominic Calvert-Lewin tvöfaldaði forystu Everton á 62. mínútu.

Will Vaulks minnkaði muninn fyrir Rotherham á 86. mínútu áður en Calvert-Lewin innsiglaði sigur Everton, tveimur mínútum síðar. Gylfi var í byrjunarliði Everton í kvöld en honum var skipt af velli fyrir Theo Walcott á 66. mínútu.

Jón Daði Böðvarsson var ekki í hóp hjá Reading sem tapaði 2:0 fyrir úrvalsdeildarliði Watford en það voru þeir Isaac Success og Domingos Quina sem skoruðu mörk Watford í leiknum. Reading er því úr leik í enska deildabikarnum en Everton er komið áfram í 3. umferð.

Nottingham Forest vann úrvalsdeildarlið Newcastle, 3:1, og þá vann Millwall sigur á Plymouth, 3:2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert