Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool var spurður út í formið á Mohamed Salah á vikulegum fréttamannafundi í dag en Salah hefur ekki verið jafniðinn við að skora og á síðustu leiktíð.
„Salah hefur verið frábær í síðustu tveimur leikjum þrátt fyrir að hann hafi ekki skorað. Hann er tilbúinn að vinna fyrir liðið og það er alveg eðlilegt að sú staða komi upp að þú skorir ekki. Hann er í frábæru formi. Hann missti boltann í kjölfarið á öðru marki Paris SG en það er allt í góðu með hann,“ sagði Klopp.
Salah skoraði 44 mörk í öllum keppnum á síðustu leiktíð og sló algjörlega í gegn á sínu fyrsta ári en hann var valinn leikmaður ársins, bæði af leikmönnum deildarinnar og blaðamönnum.
Klopp staðfesti að Brasilíumaðurinn Roberto Firmino sé klár í slaginn gegn Southampton á morgun en Firmino kom inn á sem varamaður seint í leiknum gegn Paris og skoraði sigurmarkið í uppbótartíma. Brasilíski framherjinn meiddist á auga í leiknum gegn Tottenham um síðustu helgi og var tæpur fyrir leikinn á móti Frakklandsmeisturunum.
Þá sagði Klopp stutt í endurkomu króatíska miðvarðarins Dejan Lovren.
„Það er stutt í Dejan sem lítur vel út. Hann verður ekki í leikmannahópnum um helgina en við munum sjá hversu stutt verður í að hann verði valinn,“ sagði Klopp.