Eigandi enska knattspyrnufélagsins Leicester City, Vichai Srivaddhanaprabha, er látinn en þetta staðfesti enska félagið í tilkynningu sem það sendi frá sér í kvöld. Þyrla í eigu Vichai Srivaddhanaprabha hrapaði fyrir utan heimavöll félagsins, King Power-völlinn, á laugardaginn eftir 1:1-jafntefli liðsins gegn West Ham í ensku úrvalsdeildinni.
Fimm voru í þyrlunni, en ekki sex eins og upphaflega var greint frá, en í yfirlýsingu frá Leicester City kemur fram að allir farþegar þyrlunnar hafi látist. Ekki hefur ennþá verið gefið upp hverjir aðrir farþegar þyrlunnar voru, en samkvæmt enskum fjölmiðlum var dóttir Srivaddhanaprabha um borð í þyrlunni, ásamt tveimur flugmönnum og ónefndum fimmta aðila.
„Með sorg í hjarta staðfestum við hér með að stjórnarformaður og eigandi félagsins, Vichai Srivaddhanaprabha, er einn af þeim fimm sem létust í þyrluslysi sem átti sér stað fyrir utan heimavöll félagsins í gærkvöldi. Enginn lifði slysið af. Hugur okkar er hjá aðstandendum Srivaddhanaprabha og fjölskyldum þeirra sem týndu lífi í þessu hræðilega slysi,“ segir meðal annars í tilkynningu sem félagið sendi frá sér í kvöld.
Srivaddhanaprabha var dáður af stuðningsmönnum liðsins og ljóst að hans verður sárt saknað. Fjöldi fólks hefur safnast saman fyrir utan leikvang félagsins í dag, ýmist í leit að fréttum um afdrif hans eða til að votta honum virðingu sína.