Sex í þyrluslysinu í Leicester

Þyrla Vichai Srivaddhanaprabha á vellinum í Leicester en hann notaði …
Þyrla Vichai Srivaddhanaprabha á vellinum í Leicester en hann notaði hana jafnan í ferðum sínum til og frá vellinum. AFP

Samkvæmt fréttastofu Reuters voru sex manns um borð í þyrlunni sem hrapaði niður á bílastæði við King Power, leikvang enska knattspyrnufélagsins Leicester City, í gærkvöld.

Þegar hefur komið fram að Vichai Srivaddhanaprabha, eigandi Leicester og verslunarkeðjunnar King Power, var um borð í þyrlunni og Reuters segir tvær dætur hans hafa verið með í för, tveir flugmenn og ónefndur sjötti aðili.

Sögusagnir voru í gangi um að Claude Puel, knattspyrnustjóri Leicester, hefði verið í þyrlunni, sem hóf sig á loft af miðjuhring leikvangsins hálftíma eftir að leik Leicester og West Ham í ensku úrvalsdeildinni lauk, en þær voru bornar til baka í morgun.

Vichai Srivaddhanaprabha er sextugur Taílendingur, sagður fimmti ríkasti maður Taílands, en hann keypti Leicester City árið 2010. Félagið sló í gegn árið 2016 þegar það varð öllum að óvörum enskur meistari og lék í Meistaradeild Evrópu tímabilið 2016-17. 

Eigandinn er gríðarlega vinsæll í Leicester, bæði hjá stuðningsmönnum Leicester og borgarbúum almennt, og í máli manna í gærkvöld og morgun er víða komið inn á að hann hafi verið mikil fyrirmynd annarra eigenda knattspyrnufélaga. Hann hafi styrkt margs konar góðgerðarmál í Leicester, fyrir utan fótboltann, og verið í góðum tengslum við almenna félagsmenn og aðra.

Fjöldi manns hefur lagt blómsveiga við völl Leicester City í …
Fjöldi manns hefur lagt blómsveiga við völl Leicester City í morgun vegna slyssins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert