Fullkomin leið til að gleyma síðasta leik

Gylfi Þór Sigurðsson skorar af öryggi gegn Burnley.
Gylfi Þór Sigurðsson skorar af öryggi gegn Burnley. Ljósmynd/Evertonfc.com

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði eitt marka Everton í 5:1-sigri á Jóhanni Berg Guðmundssyni og félögum í Burnley í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær. Gylfi kom Everton í 3:0 á 22. mínútu með marki úr víti. 

Vítaspyrnan var dæmd eftir að Ben Mee handlék knöttinn innan teigs og skoraði Gylfi af miklu öryggi. Einhverjir stuðningsmenn Everton vildu hins vegar fá annan mann á punktinn, þar sem Gylfi er búinn að klikka á tveimur vítum á leiktíðinni til þessa. 

Gylfi vissi hins vegar sjálfur að hann væri enn þá vítaskytta númer eitt eftir spjall við knattspyrnustjórann, Marco Silva. „Stjórinn talaði við mig og sagðist enn hafa trú á mér. Hann talaði við mig eftir að ég brenndi af á móti Watford og sagði að ég tæki næstu spyrnu," sagði Gylfi í samtali við Liverpool Echo. 

„Sem betur fer fór þessi spyrna inn. Maður er alltaf mjög vonsvikinn þegar maður klikkar á vítum, en maður verður að halda áfram. Þetta er partur af því að spila fótbolta. Þú skorar stundum og klikkar stundum," bætti Gylfi við. 

Hann var að sjálfsögðu ánægður með sigurinn, en Everton fékk 6:2-skell gegn Tottenham í umferðinni á undan. „Þetta var fullkominn leið til að gleyma síðasta leik," sagði Gylfi Þór Sigurðsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert