Argentínski knattspyrnumaðurinn Gonzalo Higuaín mun að öllu óbreyttu leika sinn fyrsta leik með Chelsea á sunnudaginn þegar liðið mætir Sheffield Wednesday á heimavelli í 4. umferð ensku bikarkeppninnar.
Higuaín gekk í raðir Chelsea í fyrradag sem lánsmaður frá Ítalíumeisturum Juventus og þar sem Oliver Giroud varð fyrir meiðslum í undanúrslitaleiknum gegn Tottenham í ensku deildabikarkeppninni í gær þykir líklegt að Higuaín verði í byrjunarliðinu á sunnudaginn.
Gianfranco Zola aðstoðarstjóri Chelsea telur að Argentínumaðurinn verði fljótur að aðlagast enska boltanum.
„Við erum að tala um leikmann sem hefur ekki bara skorað mörk á Ítalíu heldur víða annars staðar og í Meistaradeildinni. Ég er viss um að hann geti staðist væntingarnar sem gerðar eru til hans og við munum hjálpa honum að skora sín mörk,“ segir Zola.