Neil Warnock knattspyrnustjóri Cardiff City fór á kostum á fréttamannafundi sínum núna í hádeginu þar sem viðureign Manchester City og Cardiff í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld átti að vera umræðuefnið.
Mikill tími fór í að ræða dómgæsluna í leik Cardiff og Chelsea á sunnudaginn en þar töpuðu Warnock, Aron Einar Gunnarsson og félagar 1:2 eftir að hafa verið 1:0 yfir skömmu fyrir leikslok. Chelsea jafnaði metin með mjög umdeildu marki þar sem rangstaða hefði væntanlega átt að vera dæmd.
Warnock sagði að hann hefði sektað eiginkonu sína, Sharon, og hótað að kæra hana til enska knattspyrnusambandsins eftir að hún sagði við hann að leik loknum að hún hefði ekki reynt að hindra hann í að berja Craig Pawson dómara og aðstoðarmenn hans!
„Ég varð að taka í taumana, ég sektaði hana um einnar viku laun því svona lagað má maður ekki segja!" sagði Warnock og glotti við tönn.
„Ég sagði henni að róa sig því annars myndi ég kæra hana til knattspyrnusambandsins. Ég held að hún hafi sagt það sem 30 þúsund stuðningsmenn Cardiff hefðu viljað segja. Það get ég ekki samþykkt og þess vegna greip ég til þessara aðgerða gagnvart henni!" sagði Warnock, og sendi síðan Mike Riley, yfirmanni dómaramála úrvalsdeildarinnar, tóninn.
„Mér fannst alltaf Mike Riley vera verksmiðjuframleiddur dómari frá því ég sá hann fyrst. Hann hefur ekkert breyst. Hann var þjálfaður og búinn til, nánast eins og vélmenni. Hann veit allt um reglurnar en mér finnst slíkt fólk eiga erfitt með að skilja leikinn og mannlega þáttinn. Margir dómarar eru eins og Mike Riley og þess vegna finnst mér að dómgæslu hafi hrakað.
Mönnum er ekki leyft að beita heilbrigðri skynsemi nú til dags en bestu dómararnir nota hana þó enn þá,“ sagði Neil Warnock, og ekki er ólíklegt að þessi ummæli hans verði skoðuð nánar af enska knattspyrnusambandinu.