Jón Daði kominn í Millwall

Jón Daði Böðvarsson.
Jón Daði Böðvarsson. mbl.is/Eggert

Landsliðsmaðurinn Jón Daði Böðvarsson er genginn í raðir enska B-deildarliðsins Millwall frá Reading en félagið greinir frá þessu á heimasíðu sinni.

Jón Daði hefur leikið með liði Reading frá árinu 2017 en þangað kom hann frá Wolves. Ekki kemur fram á vef Millwall til hve langs tíma samningur Jón Daða er né kaupverðið en talið er að Millwall greiði um 750 þúsund pund fyrir Selfyssinginn.

Jón Daði er 27 ára gamall sem lék með Selfyssingum áður en hann hélt út í atvinnumennskuna. Hann fór til norska liðsins Viking Stavanger sem hann lék með frá 2013-15 og hefur síðan spilað með Kaiserslautern í Þýskalandi, Wolves og Reading.

Millwall endaði í 21. sæti af 24 liðum í ensku B-deildinni á síðustu leiktíð en komst í átta liða úrslit í ensku bikarkeppninni þar sem liðið tapaði í vítaspyrnukeppni fyrir Brighton. Á leið sinni í átta liða úrslitin sló liðið til að mynda Gylfa Þór Sigurðsson og félaga hans í Everton úr leik.

„Ég hef vitað af áhuga Millwall í nokkurn tíma. Ég er ánægður með að þetta er loks orðið klárt og ég hlakka til að hitta strákana og byrja. Ég get ekki beðið eftir fyrsta leiknum á tímabilinu. Ég er mjög spenntur og vonandi mun okkur ganga vel,“ segir Jón Daði meðal annars á heimasíðu Millwall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert