Aston Villa: Mikil innkaup í sumar

Aston Villa fagnar á Wembley í vor eftir sigur á …
Aston Villa fagnar á Wembley í vor eftir sigur á Derby í umspilsleiknum um sæti í úrvalsdeildinni. AFP

Aston Villa er eitt af gamalgrónu félögunum í enska fótboltanum og er nú komið aftur í úrvalsdeildina eftir þriggja ára fjarveru.

Aston Villa komst í umspil B-deildarinnar síðasta vor með góðum endaspretti, náði fimmta sæti deildarinnar, sló fyrst út WBA í umspilinu og lagði síðan Derby að velli í úrslitaleik á Wembley, 2:1.

Leikmannahópur Aston Villa hefur tekið miklum breytingum í sumar en stór hópur leikmanna hefur verið keyptur til að þétta raðirnar án þess að þar séu sérstaklega stór nöfn á ferðinni. Þrír þeirra sem Villa hefur fest kaup á léku reyndar með liðinu sem lánsmenn síðasta vetur. Margir eru horfnir á braut í staðinn.

Tveir leikmenn sem Aston Villa keypti af Club Brugge í Belgíu í sumar eru áhugaverðir. Brasilíski framherjinn Wesley var keyptur fyrir 22 milljónir punda. Hann skoraði 10 mörk í 28 leikjum í belgísku A-deildinni síðasta vetur. Marvelous Nakamba, miðjumaður frá Simbabve, var keyptur fyrir 11 milljónir punda en hann er landsliðsmaður þjóðar sinnar og lék 49 deildaleiki með Club Brugge á tveimur árum.

Birkir Bjarnason er meðal leikmanna Aston Villa og hefur verið þar frá því í janúar 2017 þegar hann var keyptur frá Basel í Sviss. Hann fékk lítið að spila seinni hluta síðasta tímabils og óljóst er hvort honum sé ætlað hlutverk í hópnum í úrvalsdeildinni.
* Uppfært 8.8.: Birkir hefur rift samningi sínum við Aston Villa og er farinn frá félaginu.


Aston Villa er eitt þeirra fimm ensku félaga sem státa af því að hafa orðið Evrópumeistari. Villa varð enskur meistari í 7. sinn árið 1981, hafði þá ekki unnið titilinn í 71 ár, og fylgdi því eftir með því að sigra Bayern München í úrslitaleiknum um Evrópumeistaratitilinn vorið 1982. Þá keppni hóf Villa einmitt á Laugardalsvellinum með því að sigra Val 2:0 í fyrstu umferðinni haustið áður.

Aston Villa var stofnað í Birmingham árið 1874 og hefur leikið þar á Villa Park frá 1897. Félagið var eitt af stofnliðum ensku deildakeppninnar árið 1888 og vann meistaratitilinn fimm sinnum á fyrstu tólf árum hennar. Segja má því með sanni að Aston Villa hafi verið fyrsta stórveldið í ensku deildakeppninni.

Dean Smith tók við sem knattspyrnustjóri Aston Villa í október …
Dean Smith tók við sem knattspyrnustjóri Aston Villa í október 2018. Hann er 48 ára gamall og stýrði áður Brentford og Walsall en lék sjálfur hátt í 600 leiki í neðri deildunum, mest með Leyton Orient og Walsall. Ljósmynd/@Aston Villa


Knattspyrnustjóri
: Dean Smith frá 10. október 2018.
Lokastaðan 2018-19: 5. sæti B-deildar (vann umspil)
Heimavöllur: Villa Park, Birmingham, 42.785 áhorfendur.
Enskur meistari (7): 1894, 1896, 1897, 1899, 1900, 1910, 1981.
Bikarmeistari (7): 1887, 1895, 1897, 1905, 1913, 1920, 1957.
Deildabikarmeistari (5): 1961, 1975, 1977, 1994, 1996.
Evrópumeistari (1): 1982.
Íslenskir leikmenn: Jóhannes Karl Guðjónsson (2003), Birkir Bjarnason (frá 2017)

Komnir:
  1.8. Marvelous Nakamba frá Club Brugge (Belgíu)
  1.8. Tom Heaton frá Burnley
25.7. Douglas Luiz frá Manchester City (lék með Girona 2018-19)
24.7. Trézéguet (Mahmoud Hassan) frá Kasimpasa (Tyrklandi)
16.7. Björn Engels frá Reims (Frakklandi)
11.7. Ezri Konsa frá Brentford
  8.7. Tyrone Mings frá Bournemouth (var í láni frá Bournemouth)
  1.7. Matt Targett frá Southampton
17.6. Kortney Hause frá Wolves (var í láni frá Wolves)
13.6. Wesley frá Club Brugge (Belgíu)
10.6. Anwar El Ghazi frá Lille (Frakklandi) (var í láni frá Lille)
  5.6. Jota Peleteiro frá Birmingham

Farnir:
  8.8. James Bree til Luton (lán)
  7.8. Scott Hogan til Stoke (lán - var í láni hjá Sheffield United)
  1.8. Andre Green til Preston (lán)
10.7. Albert Adomah til Nottingham Forest
  1.7. Axel Tuanzebe til Manchester United (úr láni)
29.6. Ritchie De Laet til Antwerpen (Belgíu) (var í láni hjá Melbourne)
26.6. Matija Sarkic til Livingston (Skotlandi) (lán)
15.6. Tommy Elphick til Huddersfield
11.6. Harry McKirdy til Carlisle (var í láni hjá Newport)
Óvíst: Mile Jedinak
Óvíst: Alan Hutton
Óvíst: Glenn Whelan
Óvíst: Mark Bunn
Óvíst: Birkir Bjarnason

Markverðir:
  1 Tom Heaton
12 Jed Steer
25 Örjan Nyland
28 Lovre Kalinic

Varnarmenn:
  3 Neil Taylor
  5 James Chester
15 Ezri Konsa
18 Matt Targett
22 Björn Engels
24 Frederic Guilbert
27 Ahmed Elmohamady
30 Kortney Hause
40 Tyrone Mings

Miðjumenn:
  6 Douglas Luiz
  7 John McGinn
  8 Henri Lansbury
10 Jack Grealish
11 Marvelous Nakamba
14 Conor Hourihane
17 Trezeguet
21 Anwar El Ghazi
23 Jota

Sóknarmenn:
  9 Wesley
26 Jonathan Kodjia
39 Keinan Davis

Þetta er önnur greinin af 20 um liðin sem leika í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu keppnistímabilið 2019-2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert