Þegar Bournemouth, lítið félag frá samnefndri borg á suðurströnd Englands, vann sér sæti í ensku úrvalsdeildinni í fyrsta skipti vorið 2015 áttu fáir von á því að ævintýrið myndi endast í meira en eitt ár.
Nú er Bournemouth hins vegar að hefja sitt fimmta tímabil í deildinni og tilveru liðsins þar hefur aldrei verið ógnað verulega. Bournemouth hefur að mestu leyti haldið sig í kringum miðja deild þessi fjögur tímabil en þurfti þó að hafa mest fyrir því að verja tilveruréttinn fyrsta veturinn.
Eddie Howe hefur verið lengst hjá sama félaginu af núverandi knattspyrnustjórum í úrvalsdeildinni en hann hóf ævintýrið með því að taka 32 ára gamall við fjárvana uppeldisfélagi sínu á botni D-deildar í janúar 2009 og forða því frá falli, þótt það hefði verið með 17 stig í mínus vegna greiðslustöðvunar.
Ári síðar var Howe kominn með Bournemouth í C-deildina. Hann fór síðan til Burnley árið 2011 en hætti þar í október 2012 af persónulegum ástæðum og tók aftur við Bournemouth.
Hann fór með liðið upp í B-deildina vorið 2013 og tveimur árum síðar stóð liðið uppi sem meistari í þeirri deild og komið í hóp 20 bestu félaga Englands í fyrsta skipti.
Bournemouth hefur ekki slegið um sig með kaupum á dýrum leikmönnum. Margir þeirra leikmanna sem hafa spilað með liðinu í úrvalsdeildinni hafa spilað þar síðan það var í C-deildinni og Howe hefur hægt og bítandi bætt ofan á þann grunn með klókum innkaupum og góðri þjálfun.
Í sumar vekja helst athygli kaup á Arnaut Danjuma, ungum Hollendingi sem þegar hefur spilað tvo A-landsleiki fyrir þjóð sína. Harry Wilson er kominn í láni frá Liverpool en hann vakti talsverða athygli með Derby í B-deildinni síðasta vetur.
Bournemouth og Howe hafa hins vegar verið þekktust fyrir að gera sem minnst á leikmannamarkaðnum og heilu félagaskiptagluggarnir hafa opnast og lokast án þess að Bournemouth kæmi þar við sögu. Þá er liðið afar vel spilandi og ekki þekkt fyrir að leggjast í vörn gegn sterkustu liðum deildarinnar.
Hollenski miðvörðurinn Nathan Aké hefur verið mjög eftirsóttur en Bournemouth hefur staðist allar freistingar og ekki ljáð máls á því að hann væri seldur.
Bournemouth hét Boscombe við stofnun árið 1899. Félagið tók sæti í deildakeppninni árið 1923 og tók þá upp núverandi nafn.
Knattspyrnustjóri: Eddie Howe frá 12. október 2012.
Lokastaðan 2018-19: 14. sæti.
Heimavöllur: Dean Court, Bournemouth, 11.329 áhorfendur.
Besti árangur: 9. sæti úrvalsdeildar 2016-17.
Íslenskir leikmenn: Bjarni Þór Viðarsson (2007).
Komnir:
6.8. Harry Wilson frá Liverpool (lán)
1.8. Arnaut Danjuma frá Club Brugge (Belgíu)
29.7. Philip Billing frá Huddersfield
8.7. Jack Stacey frá Luton
1.7. Lloyd Kelly frá Bristol City
Farnir:
27.7. Marc Pugh til QPR
21.7. Lys Mousset til Sheffield United
8.7. Tyrone Mings í Aston Villa (var í láni hjá Aston Villa)
2.7. Emerson Hyndman til Atlanta (Band.) (lán) (var í láni hjá Hibernian)
Markverðir:
1 Artur Boruc
12 Aaron Ramsdale
27 Asmir Begovic
42 Mark Travers
Varnarmenn:
2 Simon Francis
3 Steve Cook
5 Nathan Aké
11 Charlie Daniels
15 Adam Smith
17 Jack Stacey
21 Diego Rico
25 Jack Simpson
26 Lloyd Kelly
33 Chris Mepham
Miðjumenn:
4 Dan Gosling
6 Andrew Surman
8 Jefferson Lerma
10 Jordon Ibe
14 Arnaut Danjuma Groeneveld
16 Lewis Cook
19 Junior Stanislas
20 David Brooks
24 Ryan Fraser
28 Kyle Taylor
36 Matt Butcher
54 Alex Dobre
Sóknarmenn:
7 Joshua King
9 Dominic Solanke
13 Callum Wilson
29 Philip Billing
Þetta er þriðja greinin af 20 um liðin sem leika í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu keppnistímabilið 2019-2020.