Brighton and Hove Albion slapp naumlega við fall úr ensku úrvalsdeildinni síðasta vor en liðið lék þá sitt sjötta tímabil frá upphafi meðal þeirra bestu.
Eftir ágætisframmistöðu til áramóta datt allur botn úr liðinu, það vann aðeins þrjá af síðustu átján leikjunum og endaði í 17. sætinu, tveimur stigum fyrir ofan Cardiff sem féll úr deildinni.
Brighton lék í efstu deild frá 1979 til 1983 og komst upp á ný vorið 2017. Félagið hefur eytt stærstum hluta sögu sinnar í tveimur neðstu deildunum og slapp á ævintýralegan hátt við fall út úr deildakeppninni veturinn 1996-97 þegar það sat lengi í botnsæti D-deildarinnar.
Félagið var stofnað árið 1901 og kom inn í deildakeppnina árið 1920. Það átti lengst af heimavöll sinn í borginni Hove sem er samvaxin strandborginni frægu Brighton á suðurstönd Englands. Þar lék Brighton á Goldstone Ground til 1997, síðan á Whitdean Stadium, gömlum frjálsíþróttavelli í Brighton, í nokkur ár en hefur frá 2005 átt heimavöll sinn í nágrannaþorpinu Falmer sem er um fimm kílómetra norðaustur af Brighton.
Brighton hefur í sumar keypt tvo áhugaverða leikmenn úr B-deildinni, sem eru þeir dýrustu í sögu félagsins. Það eru miðvörðurinn Adam Webster og framherjinn Neal Maupay en Brighton veðjar á að þeir blómstri í úrvalsdeildinni. Þá keypti félagið belgískan miðjumann, Leandro Trossard, frá Genk en hann er 24 ára og hefur verið í landsliðshópi Belga síðustu misserin.
Englendingurinn Graham Potter tók við liðinu í sumar en hann stýrði Swansea á síðasta tímabili og sló áður í gegn í Svíþjóð þar sem hann þjálfaði Östersund í átta ár. Hann fór með Östersund úr D-deild í úrvalsdeildina, gerði það að bikarmeisturum og kom því í riðlakeppni Evrópudeildarinnar og þaðan í 32ja liða úrslit keppninnar. Horfur eru á að Potter og hans menn þurfi að berjast harðri baráttu fyrir áframhaldandi dvöl í deild þeirra bestu og Potter þurfi að beita svipuðum töfrum og þegar hann þjálfaði sænska smáliðið með undraverðum árangri til þess að Brighton haldi áfram velli.
Knattspyrnustjóri: Graham Potter frá 20. maí 2019.
Lokastaðan 2018-19: 17. sæti.
Heimavöllur: American Express Community Stadium (Amex Stadium), Falmer, 30.750 áhorfendur.
Besti árangur: 13. sæti 1981-82.
Bikarkeppnin: Úrslitaleikur 1983.
Komnir:
8.8. Aaron Mooy frá Huddersfield (lán)
5.8. Neal Maupay frá Brentford
3.8. Adam Webster frá Bristol City
1.7. Leandro Trossard frá Genk (Belgíu)
21.6. Matt Clarke frá Portsmouth (lánaður til Derby)
Farnir:
8.8. Beram Kayal til Charlton (lán)
30.7. Markus Suttner til Fortuna Düsseldorf (Þýskalandi)
25.7. Viktor Gyökeres til St.Pauli (Þýskalandi) (lán)
21.7. Anthony Knockaert til Fulham (lán)
16.7. Ben Barclay til Accrington
1.7. Ales Mateju til Brescia (Ítalíu) (var í láni hjá Brescia)
Bruno Saltor er hættur.
Markverðir:
1 Mathew Ryan
23 Jason Steele
27 David Button
31 Robert Sánchez
Varnarmenn:
3 Gaëtan Bong
4 Shane Duffy
5 Lewis Dunk
14 Leon Balogun
21 Ezequiel Schelotto
22 Martín Montoya
26 Adam Webster
30 Bernardo
33 Dan Burn
Miðjumenn:
6 Dale Stephens
8 Yves Bissouma
11 Leandro Trossard
13 Pascal Gross
18 Aaron Mooy
19 José Izquierdo
20 Solly March
24 Davy Pröpper
39 Soufyan Ahannach
Sóknarmenn:
9 Jürgen Locadia
10 Florin Andone
15 Neal Maupay
16 Alireza Jahanbakhsh
17 Glenn Murray
25 Tomer Hemed
Þetta er fjórða greinin af 20 um liðin sem leika í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu keppnistímabilið 2019-2020.