Chelsea er eitt sigursælasta lið enskrar knattspyrnu á seinni árum en það eru einungis tvö ár síðan liðið fagnaði síðast sigri í ensku úrvalsdeildinni og þá varð liðið enskur bikarmeistari vorið 2018.
Félagið hefur verið mjög sigursælt allt frá því að rússneski auðkýfingurinn Roman Abramovich keypti það árið 2003. Chelsea hefur sex sinnum fagnað sigri í efstu deild, þar af fimm sinnum á undanförnum fimmtán árum.
Þá hefur liðið átta sinnum fagnað sigri í ensku bikarkeppninni, fimm sinnum frá árinu 2000, og fimm sinnum í deildabikarnum, síðast árið 2015. Liðið hefur einnig notið mikillar velgengni í Evrópukeppnum en liðið vann Meistaradeild Evrópu vorið 2012. Liðið varð Evrópudeildarmeistari vorið 2013 og aftur í vor eftir öruggan sigur gegn Arsenal í úrslitaleik í Bakú.
Félagið var stofnað í mars 1905 á litlum bar í Fulham-hverfinu í London sem hét þá The Rising Sun pub en heitir í dag The Butcher's Hook og er staðsettur beint á móti heimavelli félagsins, Stamford Bridge. Chelsea lék fyrst í efstu deild Englands árið 1906 en gekk illa að festa sig í sessi í efstu deild á fyrstu árunum en hefur leikið í efstu deild Englands samfleytt frá árinu 1989.
Chelsea hafnaði í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og leikur því í Meistaradeildinni á næstu leiktíð eftir eins árs fjarveru í deild þeirra bestu en alls hefur liðið tekið þátt í riðlakeppni Meistaradeildarinnar þrettán sinnum frá árinu 2005.
Markahæsti leikmaður í sögu félagsins, Frank Lampard, tók við stjórnartaumunum á Stamford Bridge í byrjun júlí eftir að Maurizio Sarri hætti með liðið til þess að taka við Juventus. Lampard er að fara inn í sitt fyrsta tímabil sem knattspyrnustjóri Chelsea en hann stýrði B-deildarliði Derby á síðustu leiktíð og fór með liðið alla leið í úrslit umspilsins um laust sæti í úrvalsdeildinni á sínu fyrsta tímabili.
Chelsea var úrskurðað í félagaskiptabann í febrúar á þessu ári og má því ekki kaupa leikmenn til félagsins í næstu tveimur félagaskiptagluggum. Félaginu tókst hins vegar að ganga frá kaupunum á tveimur stórum leikmönnum áður en bannið tók gildi. Chelsea keypti Christian Pulisic af Dortmund í janúarglugganum og þá gekk liðið frá kaupunum á króatíska miðjumanninum Mateo Kovacic fyrr í sumar eftir að Kovacic hefði eytt síðasta tímabili á láni hjá enska liðinu.
Pulisic er ætlað að fylla skarðið sem Eden Hazard skildi eftir sig þegar Belginn var seldur til Real Madrid fyrir 89 milljónir punda fyrr í sumar. Hazard er dýrasti leikmaður sumarsins enn sem komið er en hann hefur verið besti leikmaður liðsins, undanfarin ár. Þá er fyrirliði liðsins undanfarin ár, Gary Cahill, einnig horfinn á braut en hann fékk lítið sem ekkert að spila undir stjórn Maurizio Sarri á síðustu leiktíð. Gonzalo Higuaín er einnig farinn aftur til Juventus eftir að hafa eytt seinni hluta síðasta tímabils á láni hjá Chelsea.
Lampard fær það erfiða verkefni að viðhalda ákveðinni sigurhefð sem hefur skapast á Stamford Bridge en ólíkt forverum sínum í starfi þá getur hann ekki keypt leikmenn fyrir tugi milljóna punda. Chelsea er félag sem vill berjast um stóra titla en Lampard er að fara inn í ákveðið uppbyggingartímabil hjá félaginu sem mun taka tíma. Það er ástæða fyrir því að Lampard gerði þriggja ára samning en það er tíminn sem leikmaðurinn fyrrverandi telur sig þurfa til þess að gera Chelsea aftur að toppliði í enskum fótbolta.
Knattspyrnustjóri: Frank Lampard frá 4. júlí 2019.
Lokastaðan 2018-19: 3. sæti.
Heimavöllur: Stamford Bridge, London, 40.853 áhorfendur.
Enskur meistari (6): 1955, 2005, 2006, 2010, 2015, 2017.
Bikarmeistari (8): 1970, 1997, 2000, 2007, 2009, 2010, 2012, 2018.
Deildabikarmeistari (5): 1965, 1998, 2005, 2007, 2015.
Evrópumeistari (1): 2012.
Evrópudeildarmeistari (2): 2013, 2019.
Evrópumeistari bikarhafa (2): 1971, 1998.
Íslenskir leikmenn: Eiður Smári Guðjohnsen (2000-2006).
Komnir:
1.7. Mateo Kovacic frá Real Madrid (Spáni) (var í láni frá Real)
1.7. Mason Mount frá Derby (úr láni)
1.7. Christian Pulisic frá Dortmund (Þýskalandi) (úr láni)
1.7. Kurt Zouma frá Everton (úr láni)
1.7. Fikayo Tomori frá Derby (úr láni)
Farnir:
8.8. Danny Drinkwater til Burnley (lán)
2.8. Conor Gallagher til Charlton (lán)
22.7. Ethan Ampadu til RB Leipzig (Þýskalandi) (lán)
5.7. Charly Musonda til Vitesse (Hollandi) (lán - var í láni hjá Vitesse)
3.7. Mario Pasalic til Atalanta (Ítalíu) (lán - var í láni hjá Atalanta)
1.7. Tomás Kalas til Bristol City (var í láni hjá Bristol City)
1.7. Gonzalo Higuaín til Juventus (Ítalíu) (úr láni)
1.7. Jay Dasilva til Bristol City (var í láni hjá Bristol City)
11.6. Ola Aina til Torino (Ítalíu) (var í láni hjá Hull)
7.6. Eden Hazard til Real Madrid (Spáni)
Markverðir:
1 Kepa Arrizabalaga
13 Willy Caballero
31 Jamie Cumming
Varnarmenn:
2 Antonio Rüdiger
3 Marcos Alonso
4 Andreas Christensen
15 Kurt Zouma
21 Davide Zappacosta
24 Reece James
28 César Azpilicueta
29 Fikayo Tomori
30 David Luiz
33 Emerson Palmieri
Miðjumenn:
5 Jorginho
7 N'Golo Kanté
8 Ross Barkley
12 Ruben Loftus-Cheek
14 Tiémoué Bakayoko
17 Mateo Kovacic
19 Mason Mount
Marco van Ginkel
Sóknarmenn:
9 Tammy Abraham
10 Willian
11 Pedro
16 Kenedy
18 Olivier Giroud
20 Callum Hudson-Odoi
22 Christian Pulisic
23 Michy Batshuayi
Þetta er sjötta greinin af 20 um liðin sem leika í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu keppnistímabilið 2019-2020.