Crystal Palace: Tæp tvö ár frá tímamótum

Crystal Palace á afar öfluga stuðningsmenn og það er jafnan …
Crystal Palace á afar öfluga stuðningsmenn og það er jafnan gríðarleg stemning á heimaleikjunum á Selhurst Park. AFP

Crystal Palace hefur tekist að koma sér vel fyrir í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á undanförnum árum, eftir mikið basl á fyrsta áratug 21. aldarinnar, og er ekki lengur talið til fyrirsjáanlegra fallkandídata í upphafi tímabils.

Tímamót urðu í september 2017 þegar hinn sjötugi Roy Hodgson tók við liðinu á botni deildarinnar, en það fékk ekki stig og skoraði ekki mark í fyrstu sjö leikjum tímabilsins. Hafi einhvern tíma orðið algjör umskipti á liði í deildinni þá var það hjá Palace í kjölfarið á verstu byrjun liðs í sögu úrvalsdeildarinnar.

Palace skoraði sitt fyrsta mark og fékk sín fyrstu stig í október en stóð uppi í ellefta sæti um vorið, sem er nánast ótrúlegt miðað við þessa martraðarbyrjun, og fylgdi því eftir með tólfta sætinu á síðustu leiktíð. Fyrir Lundúnalið sem stendur stóru félögunum nokkuð að baki hvað varðar stærð og fjármagn verður það að teljast góð staða. 

Palace gerði bestu liðum deildarinnar margar skráveifur síðasta vetur, vann m.a. bæði Manchester City og Arsenal 3:2 á útivöllum, sló Tottenham út úr bikarkeppninni og tapaði 4:3 fyrir Liverpool í ótrúlegum leik á Anfield.

Crystal Palace var stofnað í hverfinu Selhurst í suðurhluta London árið 1905 og hefur leikið á Selhurst Park frá 1924. Félagið kom inn í deildakeppnina árið 1920, vann C-deildina á sínu fyrsta ári og hefur í seinni tíð lengst af leikið í tveimur efstu deildunum en oft flakkað á milli þeirra. Félagið komst upp í efstu deild í fyrsta skipti árið 1968 og hápunktinum náði Palace árið 1991 þegar liðið endaði í þriðja sæti á eftir Arsenal og Liverpool.

Félagið átti í miklum fjárhagsvandræðum um og eftir aldamótin og fór tvívegis í greiðslustöðvun. Palace náði að rífa sig upp úr því, vann sig aftur upp í úrvalsdeildina árið 2013 og hefur leikið þar síðan, best náð 10. sætinu árið 2015 og neðst endað í fimmtánda sætinu 2016.

Wilfried Zaha er uppalinn hjá Crystal Palace og er lykilmaður …
Wilfried Zaha er uppalinn hjá Crystal Palace og er lykilmaður liðsins en hann hefur leikið tæplega 300 deildaleiki með liðinu og Arsenal og Everton hafa ítrekað reynt að kaupa hann í sumar. AFP

Í sumar hefur Palace barist fyrir því með kjafti og klóm að halda sinni skærustu stjörnu Wilfried Zaha hjá félaginu en Arsenal og Everton hafa sótt hart að fá hann í sínar raðir, sérstaklega fyrrnefnda félagið. Enn er óvíst hvernig það fer. Félagið seldi bakvörðinn efnilega Aaron Wan-Bissaka til Manchester United fyrir 50 milljónir punda.

Hinn þrautreyndi miðvörður Gary Cahill samdi við Palace á dögunum og þótt skammur tími væri til stefnu þar til félagaskiptaglugganum yrði lokað voru yfirlýsingar félagsins á þá leið að enn ætti eftir að bætast í hópinn áður en flautað yrði til leiks.

Roy Hodgson er 72 ára gamall og hefur stýrt Palace …
Roy Hodgson er 72 ára gamall og hefur stýrt Palace frá haustinu 2017 en hann hafði þá verið í ársfríi eftir ófarirnar gegn Íslandi á EM 2016. Hann hafði þá verið með enska landsliðið í fjögur ár. Hodgson á 43 ára þjálfaraferil að baki og hefur m.a. stýrt WBA, Liverpool, Fulham, Udinese, FC København, Grasshoppers, Inter Mílanó og Malmö ásamt landsliðum Finnlands, Sviss og Sameinuðu arabísku furstadæmanna. AFP


Knattspyrnustjóri
: Roy Hodgson frá 12. september 2017.
Lokastaðan 2018-19: 12. sæti.
Heimavöllur: Selhurst Park, London, 25.486 áhorfendur.
Besti árangur: 3. sæti 1991.
Bikarkeppnin: Úrslitaleikur 1990, 2016.
Íslenskir leikmenn: Hermann Hreiðarsson (1997-98).

Komnir:
  7.8. James McCarthy frá Everton
  7.8. Victor Camarasa frá Real Betis (Spáni) (lán)
  5.8. Gary Cahill frá Chelsea
25.7. Jordan Ayew frá Swansea (var í láni hjá Cr. Palace)
  6.7. Stephen Henderson frá Nottingham Forest

Farnir:
  6.8. Jason Puncheon til Pafos (Kýpur)
  6.8. Papa Souare til Troyes (Frakklandi)
  4.8. Alexander Sörloth til Trabzonspor (Tyrklandi)
28.6. Aaron Wan-Bissaka til Manchester United
Óvíst: Julian Speroni
Óvíst: Bakery Sako

Markverðir:
13 Wayne Hennessey
19 Stephen Henderson
31 Vicente Guaita

Varnarmenn:
  2 Joel Ward
  3 Patrick van Aanholt
  5 James Tomkins
  6 Scott Dann
12 Mamadou Sakho
15 Jeffrey Schlupp
33 Ryan Inniss
34 Martin Kelly
35 Sam Woods
Gary Cahill

Miðjumenn:
  4 Luka Milivojevic
  7 Max Meyer
  8 Cheikhou Kouyaté
18 James McArthur
44 Jairo Riedewald
Victor Camarasa

Sóknarmenn:
10 Andros Townsend
11 Wilfried Zaha
14 Jordan Ayew
17 Christian Benteke
21 Connor Wickham

Þetta er sjöunda greinin af 20 um liðin sem leika í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu keppnistímabilið 2019-2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert