Everton: Tímabært að stríða þeim efstu

Gylfi Þór Sigurðsson er lykilmaður hjá Everton. Hann skoraði 13 …
Gylfi Þór Sigurðsson er lykilmaður hjá Everton. Hann skoraði 13 mörk og gaf 6 stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. AFP

Allt annað en Evrópusæti yrði vonbrigði fyrir Everton á komandi tímabili í ensku úrvalsdeildinni. Liðið missti af Evrópusætinu á síðustu leiktíð en leikmannahópurinn er sterkari í ár og liðið ætlar sér að stríða efstu liðunum í vetur. 

Everton telur sig eiga heima í hópi sex bestu liða deildarinnar og nú þarf að sýna það á vellinum. Gylfi Þór Sigurðsson verður áfram lykilmaður í liðinu, eins og hann hefur verið síðustu tvö tímabil eftir að hann kom til félagsins frá Swansea.

Gylfi hefur stimplað sig inn sem einn besti sóknarmiðjumaður deildarinnar og með betri liðsfélaga í kringum sig verður hann væntanlega enn betri. 

Gylfi Þór er búinn að skora 20 mörk í 74 leikjum með Everton og 106 mörk með félagsliðum á ferlinum. Gylfi sló persónulegt met og skoraði 13 mörk í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og gaf að auki sex stoðsendingar. Takist honum að halda uppteknum hætti eru möguleikar Everton á leiktíðinni góðir. 

Everton var stofnað árið 1878, fyrst undir nafninu Domingo Football Club. Árið eftir skipti félagið um nafn og varð Everton. Félagið hefur átt lið í efstu deild í 116 tímabil alls, fleiri en nokkurt annað félag á Englandi. Everton var eitt af tólf stofnliðum ensku deildakeppninnar árið 1888. 

Moise Kean er spennandi viðbót fyrir Everton.
Moise Kean er spennandi viðbót fyrir Everton. Ljósmynd/Moise Kean

Liðið hefur orðið enskur meistari níu sinnum, en aðeins þrjú félög hafa unnið Englandsmeistaratitilinn oftar. Auk þess hefur liðið unnið enska bikarinn fimm sinnum og Evrópukeppni bikarhafa einu sinni. 

Portúgalinn Marco Silva tók við Everton fyrir síðustu leiktíð og byrjaði ekki vel. Á tímabili var sætið hans orðið býsna heitt og óttuðust margir að hann yrði settur í sama flokk og Sam Allardyce og Ronald Koeman sem misheppnaðar þjálfararáðningar hjá Fahrad Moshiri, eiganda félagsins. 

Everton vann ekki í fimm leikjum í röð í desember og aðeins einn leik af átta frá desember til nýárs. Everton hrökk hins vegar í gang í febrúar og endaði á að vinna sex af síðustu ellefu leikjum sínum og tapa aðeins tveimur. Everton vann m.a. 4:0-sigur á Manchester United, 1:0-sigur á Arsenal, 2:0-sigur á Chelsea og gerði markalaust jafntefli við Liverpool í mars og apríl. 

Marco Silva er á leið í sitt annað tímabil með …
Marco Silva er á leið í sitt annað tímabil með Everton. Hann er 42 ára Portúgali sem hefur einnig þjálfað Hull og Watford á Englandi. Hann lék lengst af ferlinum með Estoril í heimalandinnu og var stjóri liðsins í þrjú ár. AFP

Það virðist vera meðbyr hjá Everton. Stjórinn er kominn með traust og félagið berst um stóra bita á félagsskiptamarkaðnum. Félagið neyddist til að selja Idrissa Gana til Frakklandsmeistara PSG, en hefur annars verið í sókn og gætu fleiri góðir leikmenn bæst við hópinn áður en tímabilið hefst. 

Félagið gerði vel í að næla í André Gomes frá Barcelona, en hann var að láni hjá félaginu á síðustu leiktíð. Fabian Delph kemur með gæði á miðjuna og Jean-Philippe Gbamin er spennandi miðjumaður sem ætti að geta leyst Gana af hólmi.

Moise Kean er hins vegar sá leikmaður sem stuðningsmenn Everton eru spenntastir fyrir. Kean er aðeins 19 ára en lét vita af sér með Juventus á síðustu leiktíð. Hann hefur skorað 7 mörk í 16 leikjum í A-deildinni á Ítalíu og tvö mörk í aðeins þremur landsleikjum með Ítalíu. Everton ætlar sér í Evrópukeppni á næstu leiktíð og möguleikarnir eru svo sannarlega til staðar. 

André Gomes verður áfram hjá Everton.
André Gomes verður áfram hjá Everton. AFP

Knattspyrnustjóri: Marco Silva (Portúgal) frá 31. maí 2018.
Lokastaðan 2018-19: 8. sæti.
Heimavöllur: Goodison Park, Liverpool, 39.221 áhorfandi.
Enskur meistari (9): 1891, 1915, 1928, 1932, 1939, 1963, 1970, 1985, 1987.
Bikarmeistari (5): 1906, 1933, 1966, 1984, 1995.
Evrópumeistari bikarhafa (1): 1985.
Íslenskir leikmenn: Bjarni Þór Viðarsson (2004-2008), Gylfi Þór Sigurðsson (frá 2017).

Komnir:
  8.8. Alex Iwobi frá Arsenal
  7.8. Djibril Sidibe frá Mónakó (Frakklandi) (lán)
  4.8. Moise Kean frá Juventus (Ítalíu)
  2.8. Jean-Philippe Gbamin frá Mainz (Þýskalandi)
15.7. Fabian Delph frá Manchester City
  1.7. Jonas Lössl frá Huddersfield
24.6. André Gomes frá Barcelona (var í láni frá Barcelona)

Farnir:
  8.8. Muhamed Besic til Sheffield United (lán - var í láni hjá Middlesbro)
  8.8. Matthew Pennington til Hull (lán)
  7.8. James McCarthy til Crystal Palace
30.7. Idrissa Gana Gueye til París SG (Frakklandi)
22.7. Ademola Lookman til RB Leipzig (Þýskalandi)
11.7. Kieran Dowell til Derby (lán)
  4.7. Phil Jagielka til Sheffield United
  3.7. Brendan Galloway til Luton
  2.7. Sandro Ramírez til Valladolid (Spáni) (lán - var í láni hjá Real Sociedad)
  1.7. Kurt Zouma til Chelsea (úr láni)
10.6. Jonjoe Kenny til Schalke (Þýskalandi) (lán)
Óvíst: Ashley Williams

Markverðir:
  1 Jordan Pickford
22 Maarten Stekelenburg
Jonas Lössl

Varnarmenn:
  2 Mason Holgate
  3 Leighton Baines
  4 Michael Keane
12 Lucas Digne
13 Yerry Mina
15 Cuco Martina
23 Séamus Coleman
Djibril Sidibe

Miðjumenn:
  7 Yannick Bolasie
  8 Fabian Delph
10 Gylfi Þór Sigurðsson
16 James McCarthy
18 Morgan Schneiderlin
20 Bernard
21 André Gomes
25 Jean-Philippe Gbamin
26 Tom Davies
34 Beni Baningime
Kevin Mirallas

Sóknarmenn:
11 Theo Walcott
14 Cenk Tosun
19 Oumar Niasse
27 Moise Kean
29 Dominic Calvert-Lewin
30 Richarlison
Alex Iwobi
Henry Onyekuru

Þetta er áttunda greinin af 20 um liðin sem leika í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu keppnistímabilið 2019-2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert