Leicester: Stórt skarð sem þarf að fylla

Youri Tielemans sýndi lipra takta með Leicester á seinni hluta …
Youri Tielemans sýndi lipra takta með Leicester á seinni hluta síðasta tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni. AFP

Leicester City kom öllum á óvart tímabilið 2015-16 þegar liðið tryggði sér nokkuð sannfærandi sigur í ensku úrvalsdeildinni en liðið endaði með 81 stig í efsta sæti deildarinnar, tíu stigum meira en Arsenal.

Margir sparkspekingar tala um að það afrek verði aldrei leikið eftir aftur en margir lykilmenn frá sigurliðinu 2015-16 eru horfnir á braut. Liðið hefur ekki verið sigursælt á enskan mælikvarða frá því að klúbburinn var stofnaður árið 1884. Leicester hefur þrisvar sinnum fagnað sigri í enska deildabikarnum, síðast árið 2000, og þá hefur liðið fjórum sinnum endað í öðru sæti ensku bikarkeppninnar, síðast árið 1969.

Félagið hét upprunalega Leicester Fosse en nafnið var tilkomið þar sem liðið lék á leikvangi sem stóð nálægt götu sem hét Fossa Road. Félagið flutti sig um set árið 1891 og tók upp Leicester-nafnið árið 1919 og lék á Filbert Street um áratugaskeið. Félagið flutti á Walkers-völlinn árið 2002 sem var svo nefndur King Power-völlurinn árið 2011 til heiðurs styrktaraðilum félagsins.

Leicester er aðeins eitt sex félaga sem hefur unnið ensku úrvalsdeildina frá því að hún var stofnuð í núverandi mynd árið 1992. Liðið hefur flakkað mikið á milli deilda frá því það var stofnað en það lék fyrst í efstu deild tímabilið 1908-09. Liðið féll í ensku C-deildina, vorið 2008, en komst strax aftur upp í B-deildina ári síðar þar sem það lék til ársins 2014 þegar liðið tryggði sér sæti í ensku úrvalsdeildinni þar sem félagið hefur leikið síðan.

Gengi liðsins á undanförnum árum hefur verið upp og niður. Vorið 2015 hafnaði liðið í fjórtánda sæti deildarinnar, 2016 varð liðið Englandsmeistari en ári síðar endaði liðið í tólfta sæti. Undanfarin tvö tímabil hefur liðið svo þurft að gera sér það að góðu að enda í níunda sæti deildarinnar.

Norður-Írinn Brendan Rodgers er tekinn við stjórnartaumunum hjá félaginu en hann tók við liðinu í febrúar á þessu ári af Claude Puel. Rodgers þekkir ensku úrvalsdeildina út og inn en hann stýrði Swansea á árunum 2010 til 2012 áður en hann tók við Liverpool. Hann stýrði Bítlaborgarliðinu frá 2012 til 2015 en liðið endaði í öðru sæti deildarinnar tímabilið 2013-14 og rétt missti af Englandsmeistaratitilinum til Manchester City.

Leicester hefur fengið tvo öfluga leikmenn til liðs við sig í sumar, þá Youri Tielemans frá Mónakó og Ayoze Pérez frá Newcastle. Tielemans eyddi seinni hluta síðasta tímabils á láni hjá enska liðinu þar sem hann stóð sig mjög vel á meðan Pérez skoraði 12 mörk og lagði upp önnur tvö í 37 leikjum með Newcastle á síðustu leiktíð.

Félagið hefur hins vegar misst leikmenn í sumar líka og þar munar mest um enska landsliðsmiðvörðinn Harry Maguire sem var seldur til Manchester United fyrir 80 milljónir punda. Maguire hefur verið algjör lykilmaður í varnarleik Leicester frá því hann kom frá Hull City haustið 2017. Maguire hefur bundið saman varnarleik liðsins undanfarin tvö tímabil, en eins og staðan er í dag stefnir allt í að félagið muni ekki fylla skarð Maguire og því gæti varnarleikurinn reynst stærsti höfuðverkur liðsins á komandi leiktíð.

Leicester City hefur fest sig í sessi sem gott úrvalsdeildarlið en væntingarnar hjá félaginu eru samt sem áður miklar eftir árangurinn tímabilið 2015-16. Liðið hefur alla burði til þess að vera í efri hluta deildarinnar og þar vilja eigendur liðsins vera. Rodgers var ráðinn í febrúar til þess að ná árangri en félagið vill vera lið sem berst bæði á Englandi og í Evrópukeppni í framtíðinni.

Brendan Rodgers tók við stjórnartaumunum hjá Leicester í febrúar á …
Brendan Rodgers tók við stjórnartaumunum hjá Leicester í febrúar á þessu ári. AFP

Knattspyrnustjóri: Brendan Rodgers (N-Írlandi) frá 26. febrúar 2019.
Lokastaðan 2018-19: 9. sæti.
Heimavöllur: King Power Stadium, Leicester, 32.312 áhorfendur.
Enskur meistari (1): 2016.
Deildabikarmeistari (3): 1964, 1997, 2000.
Íslenskir leikmenn: Arnar Gunnlaugsson (1999-2002), Jóhannes Karl Guðjónsson (2004-2006).

Ayoze Pérez skoraði 12 mörk í ensku úrvalsdeildinni á síðustu …
Ayoze Pérez skoraði 12 mörk í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. AFP

Komnir:
  8.8. Dennis Praet frá Sampdoria (Ítalíu)
  8.7. Youri Tielemans frá Mónakó (Frakklandi) (var í láni hjá Leicester)
  4.7. Ayoze Pérez frá Newcastle
28.6. James Justin frá Luton

Farnir:
  5.8. Harry Maguire til Manchester United
30.7. Shinji Okazaki til Málaga (Spáni)
Óvíst: Danny Simpson

Markverðir:
  1 Kasper Schmeichel
12 Danny Ward
35 Eldin Jakupovic

Varnarmenn:
  2 James Justin
  3 Ben Chilwell
  4 Caglar Söyüncü
  5 Wes Morgan
  6 Jonny Evans
16 Filip Benkovic
18 Daniel Amartay
21 Ricardo Pereira
28 Christian Fuchs

Miðjumenn:
  8 Youri Tielemans
10 James Maddison
11 Marc Albrighton
19 Harvey Barnes
20 Hamza Choudhury
22 Matty James
23 Adrien Silva
24 Nampalys Mendy
25 Wilfred Ndidi
37 Andy King

Sóknarmenn:
  7 Demarai Gray
  9 Jamie Vardy
13 Islam Slimani
14 Kelechi Iheanacho
17 Ayoze Pérez
27 Fousseni Diabaté
31 Rachid Ghezzal

Þetta er níunda greinin af 20 um liðin sem leika í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu keppnistímabilið 2019-2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert