Newcastle: Bruce betri en Benítez?

Newcastle nýtur gríðarlegra vinsælda á heimaslóðum og yfirleitt eru ríflega …
Newcastle nýtur gríðarlegra vinsælda á heimaslóðum og yfirleitt eru ríflega 50 þúsund manns á heimaleikjum liðsins. AFP

Líklega eru flestir stuðningsmenn Newcastle United fyrst og fremst ánægðir með að liðið skyldi halda velli í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu síðasta vetur.

Newcastle átti í miklum vandræðum frá byrjun tímabilsins, fékk þrjú stig í fyrstu tíu leikjunum og vann ekki leik fyrr en í byrjun nóvember. Sá mánuður reyndist hins vegar heilladrjúgur, skilaði níu stigum úr þremur leikjum og þar með komust Rafael Benítez og hans menn á betri braut og þeim tókst að sigla fleyinu í höfn í þrettánda sæti deildarinnar.

Benítez þótti hafa unnið virkilega gott starf með takmörkuð gæði í leikmannahópnum og það var því mörgum stuðningsmanna félagsins í gamalgrónu iðnaðarborginni á Norðursjávarströnd Englands mikið áfall þegar hann ákvað að láta gott heita og flytja búferlum til Kína í sumar.

Steve Bruce, sem hefur marga fjöruna sopið, tók við liðinu í sumar, við mismikinn fögnuð velunnara félagsins. Bruce þarf eins og fyrirrennarar hans að glíma við takmarkað fjármagn sem eigandinn Mike Ashley veitir til að styrkja liðið. Ashley er ekki sérstaklega vinsæll meðal stuðningsmannanna, enda telja þeir, og ekki að ástæðulausu, að Newcastle hafi alla burði til að vera eitt af stóru liðunum í enska  fótboltanum. St James' Park er þéttsetinn rúmlega 50 þúsund áhorfendum á nánast öllum heimaleikjum og stemningin er óvíða betri, og þá hefur Newcastle verið í hópi 20 tekjuhæstu knattspyrnufélaga heims um árabil.

Eftir að Bruce tók við liðinu um miðjan júlí var hafist handa við að styrkja leikmannahópinn. Vonir eru bundnar við að brasilíski framherjinn Joelinton, franski kantmaðurinn Allan Saint-Maximin, hollenski bakvörðurinn Jetro Willems og sænski bakvörðurinn Emil Krafth reynist nægilega öflugir til að hjálpa til við að lyfta liðinu upp í miðja deild í vetur. Þá bættist gömul hetja, Andy Carroll, aftur í hópinn en hann kominn aftur til félagsins eftir átta ára fjarveru.

Jonjo Shelvey hefur leikið yfir 100 úrvalsdeildarleiki með Newcastle síðan …
Jonjo Shelvey hefur leikið yfir 100 úrvalsdeildarleiki með Newcastle síðan hann kom til félagsins árið 2016. AFP


Newcastle hefur unnið tíu stóra titla á Englandi, fjóra þeirra á árunum 1904 til 1910 en engan síðan félagið varð bikarmeistari árið 1955. Enski meistaratitillinn hefur ekki skilað sér til félagsins í 92 ár en Newcastle vann hann í fjórða sinn árið 1927. Newcastle fagnaði þó sigri í Borgakeppni Evrópu fyrir 50 árum, 1969, en sú keppni var forveri UEFA-bikarsins og síðar Evrópudeildar UEFA.

Newcastle vantaði herslumuninn til að vinna enska meistaratitilinn árin 1996 og 1997 en í  bæði skiptin hafnaði liðið í öðru sæti á eftir Manchester United. Í fyrra skiptið missti liðið niður gott forskot á lokasprettinum og þá var mál manna að Kevin Keegan, stjóri liðsins, hefði tapað sálfræðistríði við Alex Ferguson, stjóra United.

Félagið var stofnað árið 1892 þegar tvö lið í borginni voru sameinuð og liðið hefur spilað á St James' Park frá fyrsta degi. Ári síðar tók það sæti í deildakeppninni. Newcastle hefur samtals leikið 87 tímabil í efstu deild og aldrei leikið utan tveggja efstu deildanna.

Steve Bruce, sem er 58 ára gamall, tók við Newcastle …
Steve Bruce, sem er 58 ára gamall, tók við Newcastle 24 dögum fyrir fyrsta leik tímabilsins. Hann lék 737 deildaleiki, stóran hluta þeirra með Manchester United, og hefur stýrt liðum Sheffield Wednesday, Aston Villa, Hull, Sunderland, Wigan, Birmingham, Crystal Palace, Huddersfield og Sheffield United frá 1998. AFP


Knattspyrnustjóri
: Steve Bruce frá 17. júlí 2019.
Lokastaðan 2018-19: 13. sæti.
Heimavöllur: St James' Park, Newcastle, 52.354 áhorfendur.
Enskur meistari (4): 1905, 1907, 1909, 1927.
Bikarmeistari (6): 1910, 1924, 1932, 1951, 1952, 1955.
Borgakeppni Evrópu (UEFA-bikar) (1): 1969.
Íslenskir leikmenn: Engir.

Komnir:
  8.8. Andy Carroll frá West Ham
  8.8. Emil Krafth frá Amiens (Frakklandi)
  2.8. Allan Saint-Maximin frá Nice (Frakklandi)
  2.8. Jetro Willems frá Eintracht Frankfurt (Þýskalandi) (lán)
29.7. Kyle Scott frá Chelsea (lék með Telstar (Hollandi))
29.7. Jake Turner frá Bolton
23.7. Joelinton frá Hoffenheim (Þýskalandi)

Farnir:
  8.8. Jacob Murphy til Sheffield Wednesday (lán)
  1.8. Freddie Woodman til Swansea (lán)
15.7. Joselu til Alavés (Spáni)
  4.7. Ayoze Pérez til Leicester
  1.7. Salomon Rondon til WBA (úr láni)

Markverðir:
  1 Martin Dúbravka
21 Rob Elliot 
26 Karl Darlow

Varnarmenn:
  2 Ciaran Clark
  3 Paul Dummett
  5 Fabian Schär
  6 Jamaal Lascelles
15 Jetro Willems
17 Emil Krafth
18 Federico Fernández
19 Javier Manquillo
20 Florian Lejeune
22 DeAndre Yedlin

Miðjumenn:
  4 Ki Sung-yueng
  8 Jonjo Shelvey
11 Matt Ritchie
14 Isaac Hayden
24 Miguel Almirón
30 Christian Atsu
36 Sean Longstaff

Sóknarmenn:
  7 Andy Carroll
  9 Joelinton
10 Allan Saint-Maximin
12 Dwight Gayle
13 Yoshinori Muto

Þetta er þrettánda greinin af 20 um liðin sem leika í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu keppnistímabilið 2019-2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert