Sheffield United: Hraðferð upp um tvær deildir

Billy Sharp er fyrirliði og sóknarmaður Sheffield United, uppalinn hjá …
Billy Sharp er fyrirliði og sóknarmaður Sheffield United, uppalinn hjá félaginu og hefur skorað 95 mörk í 217 deildaleikjum fyrir það. Ljósmynd/@SUFC_tweets

Sheffield United leikur í ensku úrvalsdeildinni  í knattspyrnu á ný eftir tólf ára fjarveru og uppgangur félagsins hefur verið afar hraður allra síðustu árin. Stóra spurningin er hins vegar hvort liðið eigi erindi í úrvalsdeildina og fæstir gera ráð fyrir langri viðdvöl þar.

Sheffield United vann C-deildina á afar sannfærandi hátt fyrir tveimur árum, fékk 100 stig, og var ekki lengi að taka næsta skref. Liðið fór beint í efri hluta B-deildarinnar, varð að sætta sig við tíunda sætið vorið 2018 en takmarkinu var náð síðasta vor þegar Sheffield United náði öðru sætinu á kostnað Leeds í næstsíðustu umferð deildarinnar og fylgdi þar með Norwich upp í úrvalsdeildina.

Óhætt er að segja að Sheffield United hafi lengi lifað á fornri frægð því liðið vann alla sína stóru titla á árunum 1898 til 1925. Eini meistaratitill félagsins vannst fyrir 121 ári þegar Sheffield United hafnaði fimm stigum ofar en Sunderland sem endaði í öðru sæti. Grannarnir í Wednesday urðu í fimmta sæti þannig að iðnaðarborgin Sheffield var fremsta fótboltaborg Englands þann veturinn.

Chris Wilder sem tók við starfi knattspyrnustjóra Sheffield United fyrir þremur árum og hefur farið með liðið upp um tvær deildir er svo sannarlega með ramma félagstaug. Sheffield United er hans uppeldisfélag og hann lék í tvígang með liðinu á sínum ferli sem leikmaður, fyrst í sex ár og kom síðan aftur og lék með því eitt tímabil undir lok ferilsins.  

Varnarjaxlinn Phil Jagielka sneri aftur til Sheffield United í sumar …
Varnarjaxlinn Phil Jagielka sneri aftur til Sheffield United í sumar eftir tólf ára fjarveru. AFP


Þekktasti leikmaður Sheffield United er varnarjaxlinn Phil Jagielka en hann sneri aftur til félagsins í sumar eftir tólf ár með Everton. Jagielka lék með Sheffield United frá 2000 til 2007 og hefur aðeins spilað fyrir þessi tvö félög á ferlinum. Hann verður 37 ára síðar í þessum mánuði, á að baki 576 deildaleiki og 40 landsleiki fyrir England.

Skoski sóknarmaðurinn Oli McBurnie skoraði 22 mörk fyrir Swansea í B-deildinni síðasta vetur og Sheffield United keypti hann í sumar. Þá er bosníski landsliðsmaðurinn Muhamed Besic kominn sem lánsmaður frá Everton en er varnartengiliður og á 40 landsleiki að baki fyrir þjóð sína.

Ravel Morrison er áhugaverður leikmaður sem þótti gríðarlegt efni en náði sér ekki á strik með Manchester United og West Ham á árunum 2010 til 2015. Þaðan fór hann til Lazio en ekkert gekk og hann spilaði sem lánsmaður hér og þar. Stjórnarmaður Lazio sagði að Morrison gæti verið heimsklassaleikmaður, hæfileikarnir væru til staðar en hann væri „dálítill brjálæðingur“. Leið hans lá að lokum til Östersund í Svíþjóð fyrr á þessu ári en eftir reynsludvöl hjá Sheffield United í sumar ákvað Wilder að gefa honum tækifæri og samdi við hann til eins árs.

Þá teflir Sheffield United fram fyrrverandi leikmanni ÍBV en varnarmaðurinn George Baldock spilaði með ÍBV árið 2012 undir stjórn Magnúsar Gylfasonar, þá sem 19 ára gamall lánsmaður frá MK Dons. 

Chris Wilder er 51 árs gamall stjóri Sheffield United sem …
Chris Wilder er 51 árs gamall stjóri Sheffield United sem tók við liðinu 2016 en stýrði áður Northampton, Oxford, Halifax og Alfreton. Hann lék lengst af með Sheffield United og Rotherham.


Knattspyrnustjóri
: Chris Wilder frá 12. maí 2016.
Lokastaðan 2018-19: 2. sæti B-deildar.
Heimavöllur: Bramall Lane, Sheffield, 32.609 áhorfendur.
Enskur meistari (1): 1898.
Bikarmeistari (4): 1899, 1902, 1915, 1925.
Íslenskir leikmenn: Engir.

Komnir:
  8.8. Muhamed Besic frá Everton (lán)
  8.8. Michael Verrips frá Mechelen (Belgíu)
  2.8. Oli McBurnie frá Swansea
26.7. Ben Osborn frá Nottingham Forest
21.7. Lys Mousset frá Bournemouth
16.7. Ravel Morrison frá Östersund (Svíþjóð)
12.7. Callum Robinson frá Preston
  4.7. Phil Jagielka frá Everton
  3.7. Luke Freeman frá QPR

Farnir:
8.8. Mark Duffy til Stoke (lán)
5.7. Jake Eastwood til Scunthorpe (lán)
3.7. Paul Coutts til Fleetwood
1.7. Conor Washington til Hearts (Skotlandi)
1.7. Martin Crainie til Luton
1.7. Scott Hogan til Aston Villa (úr láni)
Óvíst: Daniel Lafferty

Markverðir:
  1 Dean Henderson
25 Simon Moore
Michael Verrips

Varnarmenn:
  2 George Baldock
  3 Enda Stevens
  5 Jack O'Donnell
  6 Chris Basham
12 John Egan
13 Jake Wright
15 Phil Jagielka
18 Kieron Freeman
19 Richard Stearman
Sam Graham
Ben Heneghan
Stephen Mallon

Miðjumenn:
  4 John Fleck
  7 John Lundstram
  8 Luke Freeman
14 Ravel Morrison
16 Oliver Norwood
20 Kean Bryan
23 Ben Osborn
26 Ricky Holmes
Samir Carruthers
Muhamed Besic

Sóknarmenn:
  9 Oli McBurnie
10 Billy Sharp
11 Callum Robinson
17 David McGoldrick
22 Lys Mousset
Leon Clarke

Þetta er fimmtánda grein­in af 20 um liðin sem leika í ensku úr­vals­deild­inni í knatt­spyrnu keppn­is­tíma­bilið 2019-2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert