Southampton: Uppeldisstöð á suðurströndinni

Che Adams, 22 ára enskur sóknarmaður, er kominn til Southampton …
Che Adams, 22 ára enskur sóknarmaður, er kominn til Southampton frá Birmingham. Hann skoraði 22 mörk í B-deildinni á síðasta tímabili. Ljósmynd/@SouthamptonFC

„Dýrlingarnir“ frá Southampton þurftu að hafa talsvert fyrir því að halda sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu síðasta vetur og gerðu ekki mikið meira en að tryggja sér áframhaldandi sæti þar.

Þeir réðust ekki í neinar stórvægilegar breytingar á leikmannahópi sínum í sumar og munu tefla fram lítið breyttu liði undir stjórn Austurríkismannsins Ralphs Hasenhüttl sem tók við liðinu skömmu fyrir síðustu jól. Hann kom því í örugga höfn í deildinni og markmiðið er að byggja ofan á þann árangur og þoka liðinu ofar á ný.

Southampton hefur leikið í úrvalsdeildinni samfleytt frá 2012 en hafði þá verið utan hennar í sjö ár og dottið niður í C-deildina um tíma. Félagið rambaði á barmi gjaldþrots vorið 2009 en í kjölfarið keypti svissneskur kaupsýslumaður, Markus Liebherr, félagið og kom því til vegs og virðingar á ný.

Southampton er frá samnefndri borg á suðurströnd Englands og félagið var stofnað árið 1885. Það byrjaði sem fótboltalið kirkjunnar í borginni og fékk þá viðurnefnið „Dýrlingarnir“ sem hefur haldist alla tíð síðan. Liðið lék heimaleikina á The Dell frá 1898 til 2001 þegar nýi leikvangurinn St Mary's Stadium tók við og þar var enn á ný höfðað til sögu félagsins sem hét Southampton St. Mary's fyrstu árin.

Besta tímabilið í sögu félagsins er veturinn 1983-84 þegar Southampton veitti Liverpool harða keppni um enska meistaratitilinn og aðeins þrjú stig skildu liðin að í lokin en Dýrlingarnir máttu sætta sig við silfrið. Sinn eina stóra titil unnu þeir árið 1976 og þá verulega óvæntan en sem B-deildarlið komust þeir í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar og sigruðu þar Manchester United 1:0 með marki frá Bobby Stokes.

Southampton hefur á undanförnum árum vakið athygli fyrir gott uppeldisstarf og þaðan hafa komið fjölmargir snjallir fótboltamenn, auk þess sem þeir hafa krækt í álitlega erlenda leikmenn sem hafa verið seldir til stærri félaga, svo sem Sadio Mané og Virgil van Dijk sem nú leika með Liverpool og Victor Wanyama hjá Tottenham. Þá sló Toby Alderweireld í gegn sem lánsmaður hjá Southampton áður en Tottenham keypti hann af Atlético Madrid.

Þeir Adam Lallana, Nathaniel Clyne og Alex Oxlade-Chamberlain sem líka leika með Liverpool eru allir frá Southampton, sem og Theo Walcott hjá Everton, Luke Shaw hjá Manchester United og Gareth Bale, leikmaður Real Madrid. 

Hasenhüttl treystir á sinn leikmannahóp en við hann hafa bæst Che Adams, sem skoraði 22 mörk fyrir Birmingham í B-deildinni í fyrra, og Moussa Djenopo, 21 árs gamall landsliðsmaður Malí sem vakti athygli sem kantmaður hjá Standard Liege í Belgíu. Þá keypti félagið framherjann Danny Ings af Liverpool eftir að hafa verið með hann í láni og Kevin Danso, ungur miðvörður, er kominn í láni frá Augsburg í Þýskalandi.

Ralph Hasenhüttl, hér ásamt framherjanum Nathan Redmond, er 52 ára …
Ralph Hasenhüttl, hér ásamt framherjanum Nathan Redmond, er 52 ára austurríkismaður sem tók við Southampton í desember 2018. Hann stýrði áður þýsku liðunum RB Leipzig, Ingolstadt, Aalen og Unterhaching. og lék sjálfur í Þýskalandi, Belgíu og Austurríki. Ljósmynd/SouthamptonFC


Knattspyrnustjóri
: Ralph Hasenhüttl (Austurríki) frá 5. des. 2018.
Lokastaðan 2018-19: 16. sæti.
Heimavöllur: St Mary's Stadium, Southampton, 32.384 áhorfendur.
Besti árangur: 2. sæti 1984.
Bikarmeistari (1): 1976.
Íslenskir leikmenn: Engir.

Komnir:
  9.8. Kevin Danso frá Augsburg (Þýskalandi) (lán)
  1.7. Danny Ings frá Liverpool (var í láni frá Liverpool)
  1.7. Che Adams frá Birmingham
13.6. Moussa Djenepo frá Standard Liege (Belgíu)

Farnir:
  8.8. Harrison Reed til Fulham (lán)
  8.8. Charlie Austin til WBA
  7.8. Josh Sims til New York Red Bulls (Bandar.) (lán)
13.7. Sam Gallagher til Blackburn
  1.7. Matt Targett til Aston Villa
  1.7. Steven Davis til Rangers (Skotlandi) (var í láni hjá Rangers)

Markverðir:
  1 Alex McCarthy
28 Angus Gunn
41 Harry Lewis
44 Fraser Forster

Varnarmenn:
  2 Cédric Soares
  3 Maya Yoshida
  4 Jannik Vestergaard
  5 Jack Stephens
  6 Wesley Hoedt
21 Ryan Bertrand
35 Jan Bednarek
43 Yan Valery
66 Kayne Ramsay
Kevin Danso

Miðjumenn:
14 Oriol Romeu
16 James Ward-Prowse
17 Stuart Armstrong
18 Mario Lemina
19 Sofiane Boufal
23 Pierre-Emile Höjbjerg
55 Callum Slattery
Moussa Djenepo

Sóknarmenn:
  7 Shane Long
  9 Danny Ings
11 Mohamed Elyounoussi
22 Nathan Redmond
61 Michael Obafemi
Che Adams
Guido Carrillo

Þetta er sextánda grein­in af 20 um liðin sem leika í ensku úr­vals­deild­inni í knatt­spyrnu keppn­is­tíma­bilið 2019-2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert