Tottenham: Þriðja liðið í kapphlaupinu

Landsliðsfyrirliðinn Harry Kane er algjör lykilmaður hjá Tottenham.
Landsliðsfyrirliðinn Harry Kane er algjör lykilmaður hjá Tottenham. AFP

Tottenham fór alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð þrátt fyrir að kaupa enga leikmenn síðasta sumar. Nú hefur veskið verið opnað og markmiðið er að blandað sér af alvöru í baráttuna um Englandsmeistaratitilinn í ár.

Tottenham hefur aldrei unnið ensku úrvalsdeildina síðan hún var sett á fót 1992, en hefur tvívegis unnið enska meistaratitilinn. Það var árin 1951 og 1961 og því meirihluti stuðningsmanna í dag sem aldrei hafa upplifað slíka stund með liði sínu. Síðasti bikar sem Tottenham vann var deildabikarinn árið 2008, en það er ekki hægt að halla sér að því til að seðja hungrið. Liðið komst alla leið í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í vor, eftir magnaðan sigur á Ajax í undanúrslitum, en beið þar lægri hlut fyrir Liverpool.

Tottenham var í baráttunni í efri hlutanum allt síðasta tímabil, en endaði að lokum í fjórða sætinu. Sumir kenndu lítilli breidd í leikmannahópnum um það að ekki tókst að halda í við Manchester City og Liverpool, en miðað við viðskiptin í sumar ætti það ekki að halda aftur af Spurs í vetur.

Tottenham keypti dýrasta leikmann í sögu sinni með komu Tanguy Ndombele frá Lyon á 55 milljónir punda. Á lokadegi félagaskipta í gær komu Giovani Lo Celso að láni frá Real Betis og bakvörðurinn bráðefnilegi Ryan Sessegnon frá Fulham, sem kostaði 25 milljónir punda.

Argentínski knattspyrnustjórinn Mauricio Pochettino var þó ekki á eitt sáttur við félagaskiptagluggann og hefði viljað gera enn betur.

Miklar vonir eru bundnar við Tanguy Ndombele sem varð dýrasti …
Miklar vonir eru bundnar við Tanguy Ndombele sem varð dýrasti leikmaður í sögu Tottenham í sumar. AFP

Tottenham var nálægt því að fá Paulo Dybala frá Juventus, sem gerði margan stuðningsmanninn æði spenntan, en það gekk ekki upp. Á sama tíma er beðið milli vonar og ótta hvort Christian Eriksen verði áfram, en hann er sagður vilja burt og gæti farið fyrir mánaðamótin þegar lokað verður fyrir félagaskiptin annars staðar í Evrópu.

Enn sem komið er hefur þó enginn fastur byrjunarliðsmaður horfið á braut, en Kieran Trippier var seldur til Atlético Madrid og gæti gert það að verkum að hægri bakvarðarstaðan verði veikasti hlekkur liðsins í vetur. Þar er treyst á Serge Aurier, Kyle Walker-Peters og Juan Foyth, en enginn af þeim hefur náð þeim stöðugleika sem vonast hefur verið eftir.

Miðjan var á tímum vandamál hjá Tottenham í fyrra, en koma Tanguy Ndombele á að breyta því, hvort sem Eriksen fer eða ekki. Hann er líklegur til þess að stjórna miðjunni með Harry Winks og Moussa Sissoko eða Eric Dier. Fram á við er liðið svo afskaplega spennandi, eins og í fyrra. Landsliðsfyrirliðinn Harry Kane er einn besti framherji deildarinnar og skoraði 24 mörk í öllum keppnum í fyrra, þrátt fyrir að missa út dágóðan tíma vegna meiðsla.

Lucas Moura reis á meðan heldur betur upp þegar Kane meiddist. Nýi maðurinn Giovani Lo Celso bætir svo enn frekar í sóknarþungann og vonast er til að Son Heung-min haldi því frábæra formi sem gerði hann svo hættulegan í fyrra. Hinum megin á vellinum mynda Toby Alderweireld og Jan Vertonghen svo ógnarsterkt miðvarðapar.

Það sem helst fór með möguleika liðsins á að keppa við City og Liverpool í deildinni í fyrra var óstöðugleiki. Liðið tapaði 13 deildarleikjum og hefur ekki tapað fleiri í tíu ár, eða síðan tímabilið 2008-2009 þegar 15 leikir töpuðust. Nú á að taka skrefið fram á við, koma í veg fyrir tveggja liða einvígi um titilinn og breyta því í þriggja hesta kapphlaup.

Tottenham var stofnað árið 1882 og varð árið 1901 fyrsta og eina utandeildaliðið til að verða enskur bikarmeistari. Félagið fékk sæti í deildakeppninni árið 1908, vann sig strax upp í efstu deild og hefur leikið þar að mestu síðan, með nokkrum undantekningum, en frá 1950 hefur félagið verið öll tímabil nema eitt, 1977-78, í efstu deild.

Tottenham varð fyrsta liðið til að vinna tvöfalt á 20. öldinni, bæði deildina og bikarinn, árið 1961 og varð fyrsta breska liðið til að vinna Evrópukeppni þegar það varð sigurvegari í Evrópukeppni bikarhafa árið 1963.

Mauricio Pochettino vonast til þess að stíga loks næsta skref …
Mauricio Pochettino vonast til þess að stíga loks næsta skref fram á við í deildinni með Tottenham. Hvort Christian Eriksen verði með í því er enn óvíst. Pochettino er 47 ára Argentínumaður sem stýrði áður Southampton og Espanyol. AFP

Knattspyrnustjóri: Mauricio Pochettino (Argentínu) frá 27. maí 2014.
Lokastaðan 2018-19: 4. sæti.
Heimavöllur: Tottenham Hotspur Stadium, London, 62.062 áhorfendur.
Enskur meistari (2): 1951, 1961.
Bikarmeistari (8): 1901, 1921, 1961, 1962, 1967, 1981, 1982, 1991.
Deildabikarmeistari (4): 1971, 1973, 1999, 2008.
Evrópubikarmeistari (1): 1963.
UEFA-meistari (2): 1972, 1984.
Íslenskir leikmenn: Guðni Bergsson (1988-1994), Emil Hallfreðsson (2005-2007), Eiður Smári Guðjohnsen (2010), Gylfi Þór Sigurðsson (2012-2014).

Komnir:
8.8. Giovani Lo Celso frá Real Betis (Spáni) (lán)
8.8. Ryan Sessegnon frá Fulham
2.7. Tanguy Ndombele frá Lyon (Frakklandi)
2.7. Jack Clarke frá Leeds (lánaður aftur til Leeds)

Farnir:
  8.8. Josh Onomah til Fulham (var í láni hjá Sheffield Wednesday)
  8.8. Cameron Carter-Vickers til Stoke (lán - var í láni hjá Swansea)
23.7. Vincent Janssen til Monterrey (Mexíkó)
17.7. Kieran Trippier til Atlético Madrid (Spáni)
  1.7. Luke Amos til QPR (lán)
Óvíst: Michel Vorm

Markverðir:
  1 Hugo Lloris
22 Paulo Gazzaniga

Varnarmenn:
  3 Danny Rose
  4 Toby Alderweireld
  5 Jan Vertonghen
  6 Davinson Sánchez
16 Kyle Walker-Peters
19 Ryan Sessegnon
21 Juan Foyth
24 Serge Aurier
33 Ben Davies

Miðjumenn:
  8 Harry Winks
11 Erik Lamela
12 Victor Wanyama
15 Eric Dier
17 Moussa Sissoko
18 Giovani Lo Celso
20 Dele Alli
23 Christian Eriksen
27 Lucas Moura
28 Tanguy Ndombele

Sóknarmenn:
  7 Son Heung-min
10 Harry Kane
14 Georges-Kévin Nkoudou

Þetta er sautjánda grein­in af 20 um liðin sem leika í ensku úr­vals­deild­inni í knatt­spyrnu keppn­is­tíma­bilið 2019-2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert