„Við eigum í mjög góðu sambandi sem byrjaði á fyrsta degi, ég ætla ekki að svíkja það traust sem er okkar á milli,“ sagði José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham, um samtöl sín við miðjumanninn Christian Eriksen sem er sagður vera á leið frá félaginu í janúar eða næsta sumar.
Daninn verður samningslaus hjá Tottenham í sumar og hefur sagt Mourinho að hann vilji vera seldur í janúar, annars ætli hann að fara frítt eftir tímabilið en Sky Sports greindi frá þessu. Mourinho segist hafa átt einkasamtöl við leikmanninn en vildi þó alls ekki gefa upp hvað þeir ræddu en Portúgalinn var að ræða við fjölmiðla á blaðamannafundi sínum fyrir leik Tottenham gegn Wolves á morgun.
„Ég veit að samningurinn hans rennur út næsta sumar og við áttum einkasamtöl sem ég mun ekki deila með neinum. Hann var heiðarlegur gagnvart mér og ég heiðarlegur gagnvart honum, samband okkar er mjög gott.“
Eriksen kom til Tottenham frá Ajax árið 2013 og á að baki rúmlega 200 leiki fyrir félagið í öllum keppnum. Eriksen verður 28 ára gamall í febrúar á næsta ári en hann á að baki 94 landsleiki fyrir Danmörku þar sem hann hefur skorað 31 mark.