Grétar Rafn valinn í úrvalsliðið

Grétar Rafn Steinsson í leik með Bolton gegn Manchester United …
Grétar Rafn Steinsson í leik með Bolton gegn Manchester United á Old Trafford árið 2012. AFP

Grétar Rafn Steinsson hefur verið valinn í áratugalið enska knattspyrnufélagsins Bolton Wanderers en hann lék með liðinu á árunum 2008 til 2012.

Mörg félög hafa haldið kosningu meðal stuðningsmanna sinna til að velja besta lið síðasta áratugar og Bolton birti sitt lið á Twitter-síðu sinni í dag. Þar er Grétar Rafn valinn besti hægri bakvörðurinn. Félagið var í úrvalsdeild öll árin sem Grétar lék með Bolton en hann var keyptur frá AZ Alkmaar á 3,5 milljónir punda í janúar 2008. Liðið féll á síðasta tímabilinu hans og hefur síðan þá fallið niður í C-deildina.

Grétar er í hópi góðra manna í úrvalsliðinu en þarna er einnig Gary Cahill, fyrrverandi fyrirliði Chelsea sem vann meðal annars Meistaradeild Evrópu með Lundúnaliðinu, sem og Marcos Alonso sem er núverandi leikmaður Chelsea.

Grétar varð samningslaus hjá Bolton sumarið 2012 en hann lék alls 126 leiki í úrvalsdeildinni og skoraði fimm mörk. Hann lagði skóna á hilluna ári síðar vegna meiðsla og starfar nú hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Everton við að finna leikmenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert