Peter Whittingham, samherji Arons Einars Gunnarssonar hjá velska knattspyrnuliðinu Cardiff City til margra ára, liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi í Barry í Wales eftir að hafa fallið illa á krá í borginni og orðið fyrir alvarlegum höfuðáverkum.
Samkvæmt lögreglunni í Suður-Wales bendir ekkert til þess að um glæpsamlegt athæfi hafi verið að ræða og svo virðist sem áverkarnir hafi stafað af slysalegu falli.
Wittingham er 35 ára gamall og er gríðarlega vinsæll í Cardiff þar sem hann lék 459 leiki á tíu árum, frá 2007 til 2017, og skoraði 98 mörk. Hann lauk ferlinum með Blackburn Rovers en hefur ekkert spilað frá vorinu 2018. Áður lék hann með Aston Villa og spilaði 17 leiki með enska 21-árs landsliðinu.