Lést af völdum höfuðhöggsins

Peter Whittingham.
Peter Whittingham. www.cardiffcityfc.co.uk

Velska knattspyrnufélagið Cardiff City hefur tilkynnt að Peter Whittingham, einn leikjahæsti leikmaður félagsins á seinni árum, sé látinn, 35 ára að aldri.

Whittingham slasaðist í vikunni þegar hann féll á höfuðið á veitingahúsi í borginni Barry í Wales og höfuðmeiðsli sem hann varð fyrir voru það alvarleg að hann lést á sjúkrahúsi í Barry. Hann lætur eftir sig eiginkonu og ungan son.

Whittingham ólst upp hjá Aston Villa og lék þar fyrstu fjögur árin á atvinnumannsferlinum en spilaði jafnframt um skeið sem lánsmaður með Burnley og Derby. Hann fór síðan til Cardiff árið 2007 og lék í tíu ár með félaginu en síðasta tímabil sitt á ferlinum, 2017-18, lék hann með Blackburn Rovers.

Með Cardiff lék hann 413 deildaleiki og samtals lék hann 507 leiki í ensku deildakeppninni. Hann skoraði 86 mörk í þessum leikjum. Whittingham er sjöundi leikjahæsti leikmaðurinn í sögu Cardiff City og sá leikjahæsti síðustu 35 árin.

Whittingham, sem spilaði ýmist sem miðjumaður eða kantmaður, lék 17 leiki með enska 21-árs landsliðinu og skoraði í þeim þrjú mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka