Evrópubanni City aflétt

Pep Guardiola og lærisveinar hans í Manchester City leika í …
Pep Guardiola og lærisveinar hans í Manchester City leika í Meistaradeildinni á næstu leiktíð. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester City mun spila í Evrópukeppni á næstu leiktíð en þetta staðfesti Alþjóða íþróttadómstóllinn í dag. City var úrskurðað í tveggja ára bann frá Evrópukeppnum fyrir brot á fjármálareglum UEFA í febrúar á þessu ári og stefndi allt í að félagið yrði því ekki í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

Forráðamenn City ákváðu að áfrýja dómnum til Alþjóða íþróttadómstólsins sem tók málið fyrir í morgun og ákvað að taka áfrýjun enska félagsins til greina. Þá sektaði UEFA enska félagið um 30 milljónir evra vegna brotanna en Alþjóða íþróttadómstóllinn hefur ákveðið að lækka þá sekt niður í 10 milljónir evra.

Margir af stærstu leikmönnum félagsins hafa verið sterklega orðaðir við brottför frá félaginu eftir að það varð ljóst að City yrði ekki í Meistaradeildinni á næstu árum. Þetta breytir því landslaginu mikið fyrir bæði félagið og auðvitað knattspyrnustjórann Pep Guardiola sem hefur aldrei tekist að gera liðið að Evrópumeisturum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert