Ensku leikmennirnir sektaðir af íslenskum yfirvöldum

Ensku landsliðsmennirnir Mason Greenwood og Phil Foden, sem ratað hafa í fréttirnar í dag, voru sektaðir af íslenskum yfirvöldum fyrir að brjóta reglur um sóttkví. 

Sky Sports greinir frá því að þeir hafi hvor um sig verið sektaðir um 250 þúsund íslenskar krónur og fengu staðfestingu á því frá lögreglunni á Íslandi. Fram kemur að þeir greiði sektina úr eigin vasa en ekki enska knattspyrnusambandið eða knattspyrnufélögin sem þeir vinna hjá. 

Í mars síðastliðnum komu fyrirmæli frá ríkissaksóknara um heimildir til að sekta fyrir brot á reglum um sóttkví eða einangrun. 

Leikmennirnir verða sendir heim til Manchester í dag og þurfa að fara hvor í sínu lagi, eins og fram hefur komið, vegna sóttvarnareglna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert