Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool íhuga nú alvarlega að selja Rhian Brewster, sóknarmann liðsins, en það er Sky Sports sem greinir frá þessu.
Brewster er einungis tvítugur að aldri en fjölmörg lið í ensku úrvalsdeildinni hafa spurst fyrir um leikmanninn að undanförnu.
Framherjinn lék sem lánsmaður hjá Swansea á seinni hluta síðasta tímabils í ensku B-deildinni. Þar skoraði hann ellefu deildarmörk í 21 byrjunarliðsleik.
Hann er af mörgum talinn eitt mesta efnið í enskum fótbolta en hann varð markahæsti leikmaður á HM U17 þegar enska liðið varð heimsmeistari á Indlandi.
Liverpool vill fá í kringum 20 milljónir punda fyrir leikmanninn en Newcastle, Aston Villa, Brighton og Sheffield United hafa öll áhuga á honum.