Gareth Bale hetja Tottenham

Gareth Bale skoraði sigurmarkið í kvöld.
Gareth Bale skoraði sigurmarkið í kvöld. AFP

Gareth Bale reyndist hetja Tottenham er liðið vann 2:1-sigur á Brighton á heimavelli í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Með sigrinum er Tottenham komið upp í annað sæti deildarinnar.

Fyrirliðinn Harry Kane kom Tottenham yfir úr vítaspyrnu á 13. mínútu en gestirnir, sem spiluðu á tímum afar vel í Lundúnum í kvöld, kræktu í verðskuldað jöfnunarmark á 56. mínútu. Tariq Lamptey skoraði það með hnitmiðuðu skoti í hornið eftir laglegan undirbúning Solly March og Pascal Gross.

Gareth Bale, sem sneri aftur til Tottenham að láni frá Real Madríd í haust, kom inn sem varamaður á 70. mínútu og var ekki lengi að setja mark sitt á leikinn. Hann skallaði boltann, einn og óvaldaður í teignum, í markið á 73. mínútu eftir fyrirgjöf frá Sergio Reguilón og reyndist það sigurmark leiksins.

Bale skoraði 55 mörk í 203 leikjum fyrir Tottenham áður en hann fór til spænska stórliðsins fyrir metfé sumarið 2013 en þetta var hans fyrsta mark á þessu tímabili. Tottenham er nú með 14 stig í öðru sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Liverpool.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert