Chelsea tapaði eftir mark í uppbótartíma

Pedro Neto skorar sigurmarkið.
Pedro Neto skorar sigurmarkið. AFP

Chelsea tapaði sínum öðrum leik í röð í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld er liðið heimsótti Wolves. Lokatölur urðu 2:1 en Pedro Neto skoraði sigurmarkið í uppbótartíma.

Þrátt fyrir að staðan hafi verið markalaus í hálfleik vantaði ekki fjörið og fengu bæði lið fín færi. Besta færið fékk Kurt Zouma um miðjan hálfleikinn en hann skallaði í slánna eftir hornspyrnu.

Chelsea byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og það skilaði fyrsta marki leiksins. Timo Werner og Ben Chilwell spiluðu vel upp vinstri kantinn og sá síðarnefndi átti góða fyrirgjöf á Olivier Giroud sem skoraði, þrátt fyrir á Rui Patricio hafi verið í boltanum, en hann lak rétt inn fyrir línuna.

Wolves svaraði með látum og jöfnunarmarkið kom á 66. mínútu. Chelsea kom boltanum ekki í burtu eftir horn og Daniel Podence lék á Ben Chilwell áður en hann skaut í Reece James og framhjá Edouard Mendy og í netið fór boltinn.

Chelsea reyndi hvað það gat til að skora sigurmarkið, en eftir þunga sókn vann Wolves boltann, brunaði upp í skyndisókn og Pedro Neto skoraði með afar góðu skoti úr teignum og tryggði Wolves stigin þrjú.

Chelsea mistókst að fara upp í toppsætið með úrslitunum og er þess í stað í 5. sæti með 22 stig. Wolves er í 9. sæti með 20 stig.

Wolves 2:1 Chelsea opna loka
90. mín. Attwell er búinn að bæta við fimm mínútum en Willy Boly liggur nú eftir meiddur svo hann verður eitthvað lengri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert