Þegar kippa þarf mönnum niður á jörðina

Peter Taylor og Brian Clough náðu ótrúlegum árangri með Derby …
Peter Taylor og Brian Clough náðu ótrúlegum árangri með Derby og Nottingham Forest á sínum tíma. AP

Auðvelt er fyrir afreksíþróttafólk að falla í þá gryfju að missa jarðtengingu þegar vel gengur.  Umhverfið og andrúmsloftið gerir það að verkum. Egóið blæs út og auðmýktin fýkur út um gluggann hjá mörgum óhörðnuðum, um stundarsakir í það minnsta. 

Landsliðsmenn í handknattleik hafa stundum minnst á í viðtölum að Guðmundur Þ. Guðmundsson landsliðsþjálfari sé sérlega góður í því að halda leikmönnum sínum á jörðinni þegar mikið liggur við. Þrátt fyrir velgengni og sæta sigra takist honum að halda mönnum einbeittum.

Fyrir þjálfara er væntanlega ekki auðvelt að finna út hvaða aðferðir henta hverjum og einum í hópi þeirra sem þau þjálfa. Á síðustu árum hafa komið fram í dagsljósið ævintýralegar sögur af einum kunnasta knattspyrnustjóra frá upphafi á Bretlandseyjum, Brian Clough. Meðal annars varðandi þetta atriði og hvernig hann hélt leikmönnum á jörðinni. Aðferðir Guðmundar eru vafalaust innan þess ramma sem talist getur faglegt en Clough var hins vegar algert ólíkindatól og hans aðferðir virðast hafa verið jafn fjölbreyttar og hugmyndaflugið bauð upp á. 

Þorvaldur Örlygsson.
Þorvaldur Örlygsson. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Einn Íslendingur lék undir stjórn Clough og var það Akureyringurinn Þorvaldur Örlygsson en Clough fékk hann til Nottingham Forest eftir að Þorvaldur var valinn besti leikmaður Íslandsmótsins árið 1989. Þorvaldur sagði í samtali við SunnudagsMoggann 8. febrúar árið 2009 að leikmenn Forest hafi upp til hópa verið logandi hræddir við knattspyrnustjórann.

„Karlinn var mikið ólíkindatól. Gjörsamlega óútreiknanlegur. Aðra stundina var hann sem ljúfasti afi en hina eins og djöfullinn sjálfur. Hann minnti einna helst á íslenska veðrið. Maður vissi aldrei hvar maður hafði hann enda voru leikmenn upp til hópa logandi hræddir við hann.“

Þorvaldur er hér ekki sérstaklega til umfjöllunar heldur Brian Clough og tveir leikmenn Forest sem Þorvaldur lék með. Ummæli Þorvaldar um að leikmenn hafi upp til hópa verið logandi hræddir við Clough gefur hins vegar ágæta innsýn.

Hér eru látin fylgja tvö dæmi um hugmyndaflug Brians Clough þegar honum þótti ástæða til að kippa leikmönnum sínum til jarðar en eftir að Clough lést árið 2004 hafa smám saman fleiri sögur verið sagðar af honum í fjölmiðlum og hlaðvarpsþáttum. 

Fjölskyldufyrirtæki fyrirliðans

Stuart Pearce var lengi fyrirliði Nottingham Forest undir stjórn Clough og fram hefur komið að Clough var að langmestu leyti hinn ánægðasti með Pearce sem fyrirliða. Þegar Pearce fór að vekja æ meiri athygli fyrir vasklega framgöngu í bakvarðastöðunni hjá Forest fór hann að fá fleiri tækifæri með enska landsliðinu. Á einhverjum tímapunkti þótti Clough greinilega rétt að kippa Pearce til jarðar og minna á hver réði ferðinni hjá Nottingham Forest.

Margir eru til frásagnar um þessa sögu þar sem Clough tók Pearce fyrir í búningsklefanum fyrir framan allan leikmannahópinn. Pearce hafði þá verið valinn í enska landsliðið sem átti heimaleik á þriðjudagskvöldi. Clough spurði Pearce hvenær hann yrði kominn til baka í vinnuna. Pearce svaraði því til að það yrði seinni partinn á fimmtudegi.

Stuart Pearce snéri sér sjálfur að þjálfun.
Stuart Pearce snéri sér sjálfur að þjálfun. AFP

Klukkan 16 á fimmtudeginum var leikmannahópurinn saman kominn í búningsklefanum fyrir æfingu. Á gólfinu var handklæði og knöttur ofan á því sem var venjan þegar Brian Clough ræddi við leikmenn. En í þetta skiptið var hann einnig með plastpoka en menn áttuðu sig ekki hvað var í honum nema að það virtist vera eitthvað í þyngri kantinum. Clough spurði Pearce hvernig honum hafi þótt hann standa sig í landsleiknum í vikunni. „Nokkuð vel,“ svaraði Pearce.

„Jæja, mér fannst þú ekki geta neitt,“ sagði stjórinn en dvaldi ekki lengur við það og skipti yfir í umræðuefni sem ekki var beinlínis fyrirsjáanlegt.

Clough hafði veitt því athygli að í leikskránni fyrir heimaleik Forest var auglýsing frá fyrirtækinu Stuart Pearce Electrics og var greinilega ekki hrifinn.

„Í leikskránni minni [hjá Forest talaði Clough gjarnan um leikskrána sína, bílastæðið sitt, búningsklefann sinn os frv til að undirstrika hver réði ferðinni] niðri í horninu á bls 9 er auglýsing frá þessu fyrirtæki. Geturðu útskýrt þetta?“

Það gat Pearce vissulega gert. Hann hafði stofnað fyrirtækið ásamt fleirum í fjölskyldunni þegar hann lék knattspyrnu í utandeildinni. Fyrirtækið bauð meðal annars upp á viðgerðir og þegar Stuart Pearce var orðinn atvinnumaður þá hélt fjölskyldufyrirtækið áfram starfssemi.

Þegar Pearce hafði varpað ljósi á þetta spurði Clough. „Ef það yrði rafmagnsbilun heima hjá mér núna og hún Barbara mín myndi hringja í þetta símanúmer til að fá aðstoð, þá myndir þú varla koma og aðstoða hana er það?“

„Nei það myndi bróðir minn gera,“ svaraði Pearce.

„Strákar, fyrirliði okkar er augljóslega falskur. Hann myndi ekki koma þótt auglýsingin gefi það til kynna,“ sagði Clough og tók því næst upp plastpokann. Í ljós kom straujárn.

„Nú vill svo til að straujárnið hjá Barböru virkar ekki. Ef þú verður ekki búinn að koma því í lag fyrir leikinn á laugardaginn þá verður þú ekki í hópnum.“

Að svo búnu gekk Clough út úr klefanum.

Pearce tók straujárnið, gerði við það og skildi það eftir á skrifstofu knattspyrnustjórans á laugardagsmorgninum eins og óskað hafði verið eftir.

Glerbrot og hundaskítur

Markvörðurinn Mark Crossley hefur oftar en einu sinni sagt frá samskiptum sínum við Brian Clough í viðtölum og sem fyrirlesari. Hann kom á tuttugasta aldursári til Forest árið 1989 og fékk óvænt tækifæri á miðju tímabili þegar markvörður liðsins veiktist, varamarkvörðurinn meiddur og reyndur varamarkvörður hafði verið lánaður.

Crossley hafði ekki spilað fyrir aðalliðið þegar þessi staða kom upp og besta lið landsins á þessum árum, Liverpool, var næsti andstæðingur Forest. Ekki vantaði leikmenn hjá Liverpool til að hrella markverði: Ian Rush, John Aldridge, John Barnes og Peter Beardsley til að nefna einhverja. Crossley spilaði og Forest vann. Ungi maðurinn sveif því hátt sem skiljanlegt er og í framhaldinu fylgdi sigurleikur í deildinni gegn Newcastle og á laugardegi í FA bikarnum gegn Coventry. Forest vann leikinn en Crossley hafði þó gert mistök í leiknum gegn Coventry.

Eftir leikinn gegn Coventry hugsaði Crossley sér gott til glóðarinnar eftir að hafa leikið þrjá mikilvæga leiki á skömmum tíma. Hann hafði svo gott sem slegið í gegn og þyrfti ekki að mæta á æfingu aftur fyrr en á mánudeginum. Hér þótti Clough greinilega rétt að grípa inn í.

Þegar Crossley kastaði kveðju á mannskapinn spurði Clough: „Hvert þykist þú vera að fara Shithouse?“ (Ekki fylgir sögunni hvers vegna Clough hafði valið þetta smekklega viðurnefni fyrir Crossley en þekkt er að þegar leikmenn voru enn að sanna sig þá notaði Clough sjaldnast þeirra réttu nöfn).

„Ég er nú bara á leið heim.“

„Og hvar er heima?“

„Ég bý í Barnsley,“ svaraði Crossley

„Þú kemur heim til mín í fyrramálið klukkan 9. Taktu með þér takkaskóna og það myndi hjálpa ef þú tækir einnig með þér hanskana,“ skipaði Clough og hélt síðan á brott. 

Mark Crossley.
Mark Crossley.

Crossley var skilinn eftir með ýmsar spurningar. Fyrir það fyrsta fylgdu því engar skýringar hvers vegna hann átti að fara heim til knattspyrnustjórans á sunnudagsmorgni. Ekki vissi hann heldur hvar Clough bjó en þóttist vita að það væri talsverð keyrsla frá City Ground, heimavelli Forest.

Crossley snéri sér til starfsmanns félagsins sem bauðst til að skutla Crossley morguninn eftir og það varð úr. Rétt fyrir kl 9 hringdi Crossley dyrabjöllunni og Barbara kom til dyra.

„Sæll Mark. Gaman að hitta þig. Ég er Barbara, eiginkona Brians. Gakktu í bæinn.“

Áður en Crossley vissi af var hann farinn að borða ristað brauð og drekka te í eldhúsinu og Barbara spjallaði við hann en Clough var hvergi sjáanlegur til að byrja með.

Brian Clough og Barbara áttu tvo syni á fullorðinsaldri á þessum tíma sem báðir hafa starfað í knattspyrnunni. Nigel lék með Forest á þessum tíma en Simon þjálfaði lið í nágrenni Notthingham sem var utan deildakeppninnar. Lið sem þessi spila gjarnan á sunnudögum.

Svo birtist Clough. „Ég ætla ekki að kalla þig Shithouse fyrir framan Barböru en ég vildi bara þakka þér fyrir.“

„Fyrir hvað?“ spurði Crossley.

„Takk fyrir að samþykkja að spila fyrir liðið hans Simon í dag. Þeir eru ekki með markvörð og mér datt í hug að þú myndir duga.“

Crossley hafði leikið daginn áður í FA-bikarnum gegn Coventry og aðeins tveimur vikum áður gegn Liverpool sem varð Englandsmeistari um vorið. Þennan sunnudagsmorguninn spilaði hann með utandeildarliði á velli sem var líkari grasi í almenningsgarði en knattspyrnuvelli, þakinn glerbrotum og hundaskít.

Svo fór að utandeildarliðið var sektað um 50 pund fyrir að tefla fram atvinnumanni í leiknum. Brian Clough lét auðvitað ekki litla sunnudagsliðið borga sektina. 50 pundin dró hann að sjálfsögðu af laununum hjá Mark Crossley!

Crossley leiðist ekki að segja þessa sögu en segist oft verða var við að fólk trúi því ekki að svona lagað geti hafa gerst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka