Beðið eftir Englendingi

Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, er í bestri stöðu til að …
Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, er í bestri stöðu til að rjúfa þrautagöngu enskra stjóra. Hann hefur þó ekki átt sjö dagana sæla að undanförnu. AFP

Heimamaður hefur ekki gert lið að Englandsmeistara í knattspyrnu frá árinu 1992 og sú ótrúlega þrautaganga virðist engan enda ætla að taka. Frank Lampard virðist næst því að vinna björninn en samt svo langt frá því. Hverjir aðrir geta talist eiga raunhæfan möguleika? Þeir eru hreint ekki margir og alls ekki með lögheimili í ensku úrvalsdeildinni nú um stundir. 

Góðir hlutir gerast hægt, segir spakmælið, og það getur verið okkur mönnunum hollt og gott að bíða. Spyrjið bara þá félaga Vladimir og Estragon sem brölluðu sitthvað meðan þeir biðu eftir Godot nokkrum á sinni tíð. Sem kom svo aldrei. Mögulega hefur hinum ástríðufullu áhangendum Liverpool verið farið að líða þannig meðan þeir biðu eftir næsta Englandsmeistaratitli, að þeir væru að bíða eftir einhverju sem aldrei kæmi, en allt hafðist það nú á endanum – eins og vera ber í ævintýrunum. Núna þegar menn eru hættir að bíða eftir því að Liverpool verði enskur meistari geta þeir byrjað að bíða eftir ýmsu öðru sem ekki hefur gerst lengi – eða jafnvel aldrei.

Howard Wilkinson heimsótti Víkina árið 2005 og hitti þar Sigurð …
Howard Wilkinson heimsótti Víkina árið 2005 og hitti þar Sigurð Jónsson, sem lék undir hans stjórn hjá Sheffield Wednesday á níunda áratugnum. Wilkinson er síðasti Englendingurinn til að gera enskt lið að meistara, Leeds 1992. Þorvaldur Örn Kristmundsson


Til að hafa grunninn sem breiðastan við upphaf þessarar vegferðar getum við byrjað á því að bíða eftir því að Englendingur geri lið að enskum meistara. „Hvað er karlinn nú að rugla?“ spyrjið þið ykkur ábyggilega en það er nú einu sinni svo að enskur knattspyrnustjóri hefur aldrei unnið ensku úrvalsdeildina. Segi ég og skrifa, aldrei! Howard Wilkinson hampaði titlinum eftirsótta seinastur Englendinga með Leeds United árið sem gamla fyrsta deildin var lögð niður, 1992. Síðan hefur verið dauður sjór. Og rúmlega það.

Skuldlaust hjá Skotunum

Skotinn sir Alex Ferguson vann úrvalsdeildina þrettán sinnum með Manchester United og Kenny Dalglish einu sinni með Blackburn Rovers en Skotar eru ekki Englendingar, allra síst eftir að þeir síðarnefndu drógu frændur sína á hárinu út úr Evrópusambandinu. Þannig að sörinn og kóngurinn teljast klárlega ekki með. Nicola Sturgeon myndi aldrei samþykkja það.

Sir Alex Ferguson vann þrettán meistaratitla með Manchester United, alla …
Sir Alex Ferguson vann þrettán meistaratitla með Manchester United, alla í úrvalsdeildinni. Hann er hins vegar Skoti en ekki Englendingur. FERRAN PAREDES


Þess má til gamans geta að næstu fjórir titlar á undan Wilkinson og Leeds höfnuðu líka í skauti Skota, tveir hjá Dalglish og Liverpool og tveir hjá George Graham og Arsenal. Næsti Englendingurinn til að vinna gömlu fyrstu deildina á undan Wilkinson var nafni hans, Kendall, sem gerði það í tvígang með Everton, 1985 og 1987. Þar á undan voru enskir stjórar á góðri siglingu, Bob Paisley og Joe Fagan með Liverpool, Ron Saunders með Aston Villa og Brian Clough með Derby County og Nottingham Forest, Don Revie með Leeds og Bertie Mee með Arsenal. Svo gerði Englendingur Everton að meistara árið 1970. Ég skal persónulega skutla næsta tölublaði Sunnudagsblaðsins heim til þeirra sem muna hvað hann hét – án þess að gúgla. 

Bob Paisley er sigursælusti enski knattspyrnustjóri sögunnar, vann sex meistaratitla …
Bob Paisley er sigursælusti enski knattspyrnustjóri sögunnar, vann sex meistaratitla með Liverpool á áttunda og níunda áratugnum.


Fyrst við erum komin í svona nördískan upptalningarham ber vitaskuld að geta þess að tveir sigursælustu og frægustu knattspyrnustjórarnir á kaldastríðstímanum voru Skotar, sir Matt Busby hjá Manchester United (fimm titlar) og Bill Shankly hjá Liverpool (þrír titlar).

Nú spyrjið þið náttúrulega: Hvort hafa enskir eða skoskir knattspyrnustjórar unnið fleiri meistaratitla á Englandi frá lokum seinna stríðs? Og jú, karlinn er með þær upplýsingar handa ykkur. Englendingar hafa örlítið betur, 32 titla á móti 28 hjá Skotunum. Þar af Paisley flesta, sex. Stan Cullis landaði þremur titlum með Úlfunum á sjötta áratugnum. Maður sem alltof sjaldan er nefndur á nafn í seinni tíð. Frá upphafi hafa enskir stjórar unnið deildina 58 sinnum en skoskir 37 sinnum. Ítalir eru í þriðja sæti með fjóra titla. Fjórir ólíkir gaurar. Takið ykkur nú stutt hlé frá lestrinum til að rifja upp hvaða kappar það eru!

Frakki reið á vaðið

Velkomin aftur! Hvar vorum við stödd? Jú, ætluðum við ekki að renna aðeins yfir það hverjir hafa verið að vinna úrvalsdeildina fyrst Englendingar koma hvergi þar nærri?

Fyrsti maðurinn til að gera enskt lið að meistara og er ekki frá Bretlandseyjum er Frakkinn Arsène Wenger. Hann leiddi Arsenal alla leið á toppinn 1998 og svo aftur 2002 og 2004. Portúgalinn José Mourinho á líka þrjá titla, með Chelsea 2005, 2006 og 2015. Ítalirnir fjórir, sem þið eruð nú með á hreinu, eru Carlo Ancelotti með Chelsea 2010, Roberto Mancini með Manchester City 2012, Claudio Ranieri með Leicester City 2016 og Antonio Conte með Chelsea 2017. Spánverji komst fyrst á blað 2018, Pep Guardiola með Manchester City en hann varði titilinn árið eftir. Jürgen Klopp varð, merkilegt nokk, fyrsti Þjóðverjinn til að leiða lið til sigurs á Englandsmótinu, Liverpool á liðinni leiktíð.

Svo er þarna líka Chilemaður (hér á ég víst að skrifa Síle en get það ekki án þess að kasta upp), Manuel Pellegrini, sem stýrði Manchester City til meistaratignar árið 2014.

Þá er aðeins eitt land ótalið, eða tvö eftir því hvernig á það er litið. Þá erum við að tala um frá upphafi. Þegar Bob Kyle gerði Sunderland að meistara árið 1913 var hann Íri en fæddist í Belfast og telst því vera Norður-Íri í dag en löndunum var skipt upp fyrir réttri öld, nokkrum árum áður en Kyle hélt á fund feðra sinna. Með gildum rökum má halda því fram að sá titill hafi því færst milli landa. Brendan Rodgers var nálægt því að bæta öðrum titli við fyrir Norður-Íra með Liverpool 2014 og gæti enn átt eftir að komast á blað en núverandi lið hans, Leicester City, er í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar, stigi á eftir toppliðum Liverpool og Manchester United. Reynslan hefur kennt manni að afskrifa ekki Leicester. 

Á Lampard möguleika?

En er einhver Englendingur í sjónmáli? Fyrir jól hefðu einhverjir ugglaust rétt upp hönd og mælt hátt og snjallt: Frank Lampard. Nú virðist Chelsea-liðið hans hins vegar vera í frjálsu falli og menn jafnvel farnir að ræða um að koma honum frá borði. Kannski ekki sanngjarnt en á móti kemur að Roman Abramovich býr að mörgum dygðum umfram gömlu góðu þolinmæðina.

Dean Smith og John Terry eru að gera góða hluti …
Dean Smith og John Terry eru að gera góða hluti með Aston Villa. Mun þeirra tími koma? AFP


Dean Smith er raunar með Aston Villa í sætinu fyrir ofan Chelsea, því áttunda, en þrátt fyrir miklar framfarir hjá því fornfræga félagi þá reiknar enginn með því að það vinni deildina. Ekki í ár og ekki á næstu árum.

Hinir ensku stjórarnir í deildinni eru óralangt frá því að vera líklegir. Hvorki á þessu ári né þessari öld.

Hvað segiði? Roy Hodgson? Bara létt yfir ykkur! Hans tækifæri kom og fór í pönkuðu ofboði fyrir réttum áratug.

Þá þurfum við klárlega að hugsa út fyrir rammann. Til að eiga raunhæfa möguleika á titlinum þurfa menn að komast að hjá einu af stóru liðunum sex, Liverpool, Manchester United, Arsenal, Tottenham Hotspur, Chelsea eða Manchester City. Hvaða Englendingur, fyrir utan Lampard, er líklegur til að landa starfi hjá þessum liðum í bráð?

Gareth Southgate er líklega stærsta nafnið í veröld enskra knattspyrnustjóra …
Gareth Southgate er líklega stærsta nafnið í veröld enskra knattspyrnustjóra um þessar mundir. Og þarf raunar ekki mikið til. AFP


Það er raunar einn sem manni flýgur í hug – Gareth Southgate, landsliðseinvaldur Englands. Hann hefur gert frábæra hluti með landsliðið og er svo sem varla á förum þaðan en myndi hann vilja spreyta sig á félagsliði er ekki útilokað að eitt af stóru liðunum sex hefði áhuga. Þó það sé svo sem ekki endilega líklegt. Þið sjáið, við erum þarna.

Dettur Gerrard í lukkupottinn?

Til að kreista fram fleiri nöfn má alveg draga Steven Gerrard inn í þessa jöfnu en hann stýrir Rangers í Glasgow. Í sögulegu samhengi er óvitlaust að mennta sig á Skotlandi. Alla Púlara dreymir um að sjá hann taka við Rauða hernum en það yrði aldrei fyrr en eftir daga Klopps og allir Púlarar hugsa til þess með hryllingi að hann hverfi á braut.

Marga dreymir um að Steven Gerrard taki við Liverpool í …
Marga dreymir um að Steven Gerrard taki við Liverpool í framtíðinni. Verður hann næsti enski knattspyrnustjórinn til að vinna ensku úrvalsdeildina? AFP


En annað stórlið? Myndi Chelsea til dæmis skoða Gerrard sem raunhæfan kost? Myndi Gerrard skoða Chelsea sem raunhæfan kost? Nú, eða Arsenal eða Tottenham? Fyrr færi hann að selja poppkorn í kvikmyndahúsi en að fara til Manchesster United. Það vitum við öll.

John Terry er annar langsóttur möguleiki. Gamli Chelsea-fyrirliðinn er nú aðstoðarmaður Deans Smiths hjá Villa og hefur metnað til að stýra liði einn og óstuddur. Gæti Chelsea hugsað sér að skipta honum inn fyrir Lampard? Þarf hann ekki að setjast í (fun)heita sætið annars staðar fyrst? Að vísu veðjaði Arsenal á Mikel Arteta, blautan bak við bæði eyrun. Það hefur gengið upp og ofan. Og Manchester United á Ole Gunnar Solskjær án þess að hann hefði stýrt liði í alvöru deild – með fullri virðingu fyrir frændum vorum í Noregi.

Rokkað eins og Harry Kane

Bíddu nú við, Harry Kane. Hvað er hann að gera …
Bíddu nú við, Harry Kane. Hvað er hann að gera hérna? Tja, lestu bara greinina til enda! AFP


Þannig að stjórar þriggja af sex stóru liðunum eru fyrrverandi leikmenn þeirra. Ef til vill gefur það mönnum á borð við Harry Kane von um að hann eigi dag einn eftir að taka við stjórnvelinum hjá Tottenham. Það er auðvitað algjörlega ótímabær pæling, maðurinn á hátindi ferils síns sem leikmaður. Kane býr á hinn bóginn að ofboðslegri sparkgreind sem hæglega gæti nýst honum áfram eftir að hann sjálfur leggur skóna á hilluna. Nú er ég auðvitað bara að hugsa upphátt, neyðin kennir naktri konu að spinna og allt það, og þið segið auðvitað ekki sálu frá þessu. Lásuð það samt fyrst hér!

Talandi um langa bið þá er Tottenham eina af stóru liðunum sex sem aldrei hefur unnið úrvalsdeildina; raunar þarf að fara sextíu ár aftur í tímann til að grafa upp seinasta meistaratitil félagsins. Það var á því herrans ári 1961, þegar Kennedy var forseti Bandaríkjanna, Bítlarnir voru enn að troða upp í klúbbum í Hamborg og við Íslendingar ókum á vinstri helmingi vegarins.

Sigurinn, undir stjórn Englendingsins Bills Nicholsons, var að vísu óhemju sannfærandi og sætur og Tottenham gerði sér lítið fyrir og jafnaði stigamet nágranna sinna í Arsenal frá 1931, 66 stig. Nicholson keyrði liðið að langmestu á aðeins fjórtán mönnum sem væri með öllu óhugsandi í dag. Tottenham varð þetta sama ár fyrsta liðið á 20. öldinni til að vinna tvennuna og var fyrir vikið talað um „lið aldarinnar“ í mörgum miðlum. Fleiri lið gerðu síðar tilkall til þeirrar nafnbótar.

Sá harðasti og hugrakkasti

Potturinn og pannan í þessu liði var Skotinn Dave Mackay sem sjálfur George Best sagði að hefði verið harðasti og hugrakkasti leikmaður sem hann hefði nokkru sinn mætt á velli. Mackay sneri sér síðar að knattspyrnustjórnun og gerði Derby County að enskum meistara árið 1975.

Fínt fordæmi fyrir Harry Kane, ekki satt? Nema hvað hörðustu Spursarar hefðu ugglaust engan húmor fyrir því að þeirra maður færi að marsera með Derby County í hæstu hæðir. Hrútarnir hafa ekki þurft að bíða nálægt því eins lengi eftir meistaratitli – bara 46 ár!

Auðvitað er þetta aðeins hugarleikfimi en þið getið ekki neitað því að það er heilmikil rómantík í því að Tottenham Hotspur vinni enska meistaratitilinn undir stjórn Harrys Kane. Það yrði að vísu ekki fyrr en eftir svona tíu til fimmtán ár en er það ekki biðarinnar virði? Í öllu falli er ég ekki í vafa um að þeir félagar Vladimir og Estragon myndu hinkra við. Sælir og glaðir.

Nánar má lesa um bið í ensku knattspyrnunni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert