Dele Alli, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Tottenham, vill komast burt frá félaginu í janúarglugganum.
Íþróttafréttamaðurinn Fabrizio Romano greinir frá því að Alli vilji komast til PSG í Frakklandi en hann hefur verið orðaður við Frakklandsmeistarana undanfarnar vikur.
Mauricio Pochettino tók við stjórnartaumunum hjá PSG á dögunum en hann og Alli þekkjast afar vel eftir að hafa unnið saman hjá Tottenham frá 2014 til ársins 2019.
Alli hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliði Tottenham á tímabilinu en hann og José Mourinho hafa ekki náð vel saman að undanförnu.
Miðjumaðurinn er samningsbundinn Tottenham til sumarsins 2024 en er einungis 24 ára gamall og er verðmetinn á 35 milljónir punda.