Enska knattspyrnufélagið Morecambe sem leikur í D-deildinni hefur fengið markvörðinn unga Jökul Andrésson frá Reading á neyðarláni.
Jökull fer beint í hópinn hjá Morecambe sem mætir Colchester á morgun en lánið er til sjö daga til að byrja með.
Jökull, sem er 19 ára gamall, fór á samskonar lán til Exeter City í sömu deild fyrr í vetur og vakti þá athygli fyrir góða frammistöðu en dvölin þar var framlengd og hann lék sex leiki.
Morecambe, sem er frá samnefndum bæ á norðvesturströnd Englands, 100 kílómetrum fyrir norðan Liverpool, er í áttunda sæti D-deildarinnar, einu stigi frá því að komast í umspilssæti, og er tveimur stigum ofar en Exeter.
Jökull er einn af fjórum markvörðum aðalliðs Reading sem leikur í B-deildinni en hann hefur ekki ennþá verið í leikmannahópi í deildarleik með félaginu.