Marcus Rashford, sóknarmaður Manchester United, er klár í slaginn gegn Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld en óttast var að hann yrði frá vegna meiðsla.
Rashford fór af velli seint í bikarleiknum gegn Liverpool á sunnudaginn, þar sem United vann 3:2, og kvartaði undan eymslum í hné.
„Marcus er tilbúinn. Hann æfði í morgun, hann fékk einhvern slink á hnéð en það virðist vera í lagi,“ sagði Ole Gunnar Solskjær knattspyrnustjóri United á vef félagsins í dag og sagði að myndataka hefði leitt í ljós að ekkert alvarlegt hefði átt sér stað.