Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Liverpool, ræddi brotthvarf Franks Lampards úr stjórastól Chelsea á blaðamannfundi í morgun.
Lampard var rekinn frá Chelsea eftir eitt og hálft ár í starfi á mánudaginn síðasta en Þjóðverjinn Thomas Tuchel tók við stjórnartaumunum hjá Chelsea í gær.
Tuchel tók einmitt við starfi Klopps hjá Borussia Dortmund árið 2015 þegar Klopp lét af störfum í Þýskalandi en Klopp tók við Liverpool í október 2015 og hefur fengið góðan tíma á Anfield til þess að byggja upp meistaralið.
„Það er tvennt í þessu, í fyrsta lagi var Frank Lampard rekinn, sem er erfitt að átta sig á,“ sagði Klopp.
„Chelsea gerði virkilega vel á leikmannamarkaðnum í sumar og það tekur tíma að búa til nýtt lið. Það er harkalegt að reka einhvern eftir svona stuttan tíma en á meðan Hr. Abramovich gefur þér peninga og tækifæri er hann ekki þolinmóðasti maður í heimi.
Ég vorkenni Lampard því hann er ungur og metnaðarfullur stjóri. Það sem gerir þetta ennþá erfiðara er að Chelsea er hans félag. Það jákvæða í þessu er auðvitað að hann getur byrjað að skrifa sína sögu annars staðar,“ bætti Klopp við.