Fyrsti leikur Thomas Tuchel sem knattspyrnustjóri Chelsea fór ekki eins og hann hafði vonað, en liðið gerði markalaust jafntefli gegn Wolverhampton Wanderers á Stamford Bridge-vellinum í Lundúnum í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Þá vann Burnley frábæran 3:2 endurkomusigur gegn Aston Villa á Turf Moor-vellinum í Burnley eftir að hafa lent tvisvar undir í leiknum.
Í leik Chelsea og Wolves voru heimamenn í Chelsea við stjórn allan leikinn en höfðu ekki erindi sem erfiði gegn þéttum varnarmúr Úlfanna.
Úlfarnir áttu þó sömuleiðis sínar sóknir inn á milli og næst komst Pedro Neto því að skora fyrir liðið þegar skot hans fór í þverslána.
Chelsea fer með jafnteflinu aftur upp í 8. sæti deildarinnar með 30 stig. Úlfarnir fara upp í 13. sæti með 23 stig.
Tveir sigrar í röð hjá Burnley
Leikur Burnley og Aston Villa reyndist afskaplega fjörugur og voru fimm mörk skoruð í æsispennandi leik.
Ollie Watkins kom gestunum í Aston Villa yfir á 14. mínútu. Þá átti Matt Targett lága fyrirgjöf af vinstri kanti. Í vítateignum hafði Watkins slitið sig lausan og náði að leggja boltann laglega í fjærhornið af stuttu færi, gott framherja mark og Villa komið í forystu.
Snemma í síðari hálfleik, á 52. mínútu, jöfnuðu liðsmenn Burnley þó metin. Ashley Westwood tók þá góða hornspyrnu og fann þar Ben Mee einan á fjærstönginni. Mee hoppaði manna hæst og skallaði boltann glæsilega í fjærhornið.
Á 68. mínútu komst Aston Villa yfir að nýju. John McGinn fann þá Jack Grealish rétt fyrir utan vítateig. Grealish gaf svo á Douglas Luiz utarlega í teignum, tók gott hlaup og fékk frábæra fyrirgjöf frá Luiz og tæklaði boltann svo í netið nálægt vítapunktinum.
Villa var þar með komið yfir að nýju og það sanngjarnt. En aldrei skyldi afskrifa baráttulið Burnley. Á 76. mínútu jafnaði Dwight McNeil metin að nýju fyrir Burnley. Hann gaf þá fyrir en eitthvað misreiknaði Emi Martínez í marki Aston Villa boltann því hann sigldi í fjærhornið áður en hann gat komið vörnum við, staðan því orðin 2:2.
Skömmu síðar tók Burnley forystuna í fyrsta skipti í leiknum. Á 79. mínútu átti McNeil góða fyrirgjöf á Chris Wood sem náði flottum skalla í nærhornið í stöngina og inn, 3:2.
Aston Villa var búið að vera talsvert sterkari aðilinn í leiknum og þá sérstaklega í fyrri hálfleik, þar sem liðið hefði auðveldlega getað skorað eitt til tvö mörk til viðbótar, en ekki er spurt að því í fótbolta.
Frábær endurkoma Burnley endaði með því að liðið vann glæsilegan 3:2 sigur á góðu Aston Villa-liði.
Burnley vinnur þar með annan sigur sinn í röð eftir að hafa unnið Liverpool á Anfield í síðustu umferð. Liðið er þar með komið upp í 15. sæti deildarinnar með 22 stig. Aston Villa er áfram í 10. sæti með 29 stig.
Jóhann Berg Guðmundsson kom inn á í liði Burnley á 60. mínútu leiksins.