Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Chelsea hafa mikinn áhuga á tveimur af stærstu stjörnum þýska boltans en það er Sky Sports sem greinir frá þessu.
Leikmennirnir sem um ræðir eru þeir Erling Braut Haaland, framherji Borussia Dortmund, og David Alaba, varnarmaður Bayern München.
Þjóðverjinn Thomas Tuchel tók við stjórnartaumunum hjá Chelsea í vikunni en hann þekkir vel til leikmannanna eftir að hafa starfað í Þýskalandi.
Haaland hefur raðað inn mörkunum í Þýskalandi og hefur skorað 37 mörk í 37 leikjum fyrir félagið síðan hann kom í janúar 2020.
Norski framherjinn er með riftunarákvæði í samningi sínum sem gerir honum kleift að yfirgefa Dortmund ef eitthvað félag er tilbúið að borga 66 milljónir punda.
Alaba verður samningslaus næsta sumar og getur því farið frítt frá Bayern München en öll stærstu lið Evrópu hafa sýnt honum áhuga.