Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var í skýjunum eftir 3:1-sigur liðsins gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Tottenham Hotspur-vellinum í London í kvöld.
Roberto Firmino, Trent Alexander-Arnold og Sadio Mané skoruðu mörk Liverpool í leiknum en Pierre-Emile Höjberg minnkaði muninn fyrir Tottenham í stöðunni 2:0.
Fyrir leik kvöldsins hafði Liverpool ekki skorað í síðustu fjórum deildarleikjum sínum og þá var liðið án sigurs í síðustu fimm deildarleikjum sínum. Sigurinn var því afar kærkominn fyrir þýska stjórann.
„Ég er í skýjunum með sigurinn,“ sagði Klopp í samtali við BT Sport.
„Þetta var frábær leikur með mikilli ákefð. Við skoruðum á réttum augnablikum í leiknum og það voru réttir leikmenn sem skoruðu mörkin. Ég er sáttur við allt nema kannski markið sem við fengum á okkur.
Það sem ég sá í dag hafði ekkert að gera með leikkerfi eða form. Þetta snerist fyrst og fremst um það hverjir við erum. Þetta var Liverpool, sérstaklega í seinni hálfleik. Ég man ekki til þess að Tottenham hafi verið mikið með boltann en við vörðumst mjög vel.
Þetta var frábær frammistaða og ég sá alla jákvæðu hlutina sem ég vil sjá þegar að við spilum. Þeir reyndu að sækja í síðari hálfleik og gerðu skiptingar en við sáum við þeim.
Við spiluðum á milli línanna og komum okkur í frábærar stöður við vítateiginn þeirra. Við pressuðum þá hátt á vellinum en samt ekki það hátt að varnarlínan okkar lenti í teljandi vandræðum,“ bætti Klopp við.