Vonast eftir að fá miðvörð fyrir gluggalok

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, þakkar José Mourinho, knattspyrnustjóra Tottenham Hotspur, …
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, þakkar José Mourinho, knattspyrnustjóra Tottenham Hotspur, fyrir leik liðanna í gær. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segist vonast eftir því að fá nýjan miðvörð til liðsins áður en félagaskiptaglugganum verður lokað næstkomandi mánudagskvöld.

Miðvarðakrísa Liverpool á tímabilinu hefur verið með miklum ólíkindum. Fyrst meiddist Virgil van Dijk illa á hné, stuttu síðar gerðist það sama fyrir Joe Gomez og þá hefur Joel Matip meiðst þrisvar sinnum á tímabilinu, nú síðast í gær í 3:1 sigrinum gegn Tottenham í deildinni.

Í ofanálag missti Fabinho, varnartengiliðurinn sem hefur verið að spila sem miðvörður vegna meiðsla van Dijk, Gomez og Matip, af leiknum í gær vegna smávægilegra meiðsla og mun einnig missa af leiknum gegn West Ham United næstkomandi sunnudag.

Klopp sagðist í leikslok í gær svartsýnn þegar kæmi að meiðslum Matips, en þá sagði hann að líklega væru liðbönd í ökkla Matips sködduð. Aðeins annað hljóð var þó komið í Klopp þegar hann ræddi við fjölmiðla í dag.

„Eftir leikinn í gær var ég frekar tilfinningaríkur vegna Joel. Það er smá vonarglæta að þetta sé ekki það alvarlegt. Við vitum ekki hver endanleg niðurstaða er,“ sagði Klopp.

Jordan Henderson, miðjumaður Liverpool og fyrirliði liðsins, hefur þurft að hlaupa í skarðið og spila miðvörð, auk þess sem ungu miðverðirnir Nat Phillips og Rhys Williams hafa spilað inni á milli en teljast tæplega nægilega góðir til að vera fyrstu kostir Englandsmeistaranna.

Því munu Liverpool reyna að kaupa nýjan miðvörð fyrir gluggalok. „Við munum reyna það. Það væri skondið ef þið hélduð að Liverpool þætti þetta ástand í lagi. Við reynum en það er ekki frá neinu meira að segja þar til eitthvað gerist. Við sjáum hvað setur,“ sagði Klopp einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert