Aston Villa vann sinn tíunda sigur í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á leiktíðinni er liðið heimsótti Southampton í kvöld og vann nauman 1:0-sigur.
Ross Barkley skoraði sigurmarkið á 41. mínútu eftir góðan undirbúning hjá Jack Grealish og reyndist það sigurmarkið.
Southampton-menn voru ekki sáttir við dómgæsluna í leiknum þar sem Matty Cash varnarmaður Villa fékk boltann augljóslega í höndina innan teigs snemma leiks en ekkert var dæmt, þrátt fyrir skoðun myndbandsdómara.
Þá skoraði Danny Ings í uppbótartíma en markið var dæmt af vegna afar tæprar rangstöðu, en öxlin á Ings var örfáum millímetrum fyrir innan vörn Villa og gestirnir sluppu með skrekkinn.
Aston Villa er í áttunda sæti með 32 stig og Southampton í ellefta sæti með 26 stig.