Félagið mikilvægara en hann sjálfur

Marcelo Bielsa.
Marcelo Bielsa. AFP

Knattspyrnustjórinn Marcelo Bielsa hefur unnið hug og hjarta stuðningsmanna Leeds eftir að hafa komið félaginu í ensku úrvalsdeildina eftir 17 ára eyðimerkurgöngu. Argentínumaðurinn verður samningslaus í sumar og er ekki tilbúinn að ræða framtíð sína enn þá.

Bielsa er dáður í Leeds fyrir að hafa komið félaginu aftur í deild hinna bestu en hann hefur verið stjóri liðsins í tæp tvö ár. Samningur hans rennur út í sumar og þótt hann sé ekki tilbúinn að ræða framtíð sína segir hann þarfir félagsins mikilvægari en hans eigin.

„Stofnun eins og Leeds er mikilvægari en hvað ég þarf og vil,“ sagði Bielsa við blaðamenn fyrir leik liðsins gegn Leicester á sunnudaginn. Leeds er í 12. sæti með 26 stig eftir 19 umferðir en Leicester er í þriðja sætinu, aðeins tveimur stigum frá toppliði Manchester City.

„Ég gæti ekki svarað því,“ sagði Bielsa spurður hvort hann teldi Leicester fært um að berjast um titilinn. „Og ég myndi gefa sama svar um hvaða lið sem er í deildinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert