Liverpool íhugar að bjóða í varnarmann Arsenal áður en félagsskiptaglugganum verður lokað á mánudaginn. Mikil meiðslakrísa hefur verið hjá Liverpool þar sem tveir lykilmenn eru meiddir út keppnistímabilið.
Shkodran Mustafi er úti í kuldanum hjá Mikel Arteta, knattspyrnustjóra Arsenal, en hann hefur aðeins spilað þrjá af 20 leikjum liðsins í ensku úrvalsdeildinni í vetur og aðallega fengið að spreyta sig í Evrópudeildinni. Mustafi er á besta aldri, 28 ára gamall, og á að baki yfir 100 leiki fyrir Arsenal síðan hann kom frá Valencia fyrir rúmum fjórum árum.
Þeir Virgil van Dijk og Joe Gomez eru báðir meiddir hjá Liverpool og líklega geta miðverðirnir ekkert spilað meira á þessu tímabili. Þá hefur Joel Matip einnig verið töluvert meiddur í vetur og hafa Englandsmeistararnir meðal annars þurft að tefla fram miðjumönnunum Fabinho og Jordan Henderson í varnarlínunni.
Ensku götublöðin Mirror og Telegraph segja frá því í dag að félagið íhugi nú að bjóða í Mustafi til að fylla í skarðið. Þjóðverjinn rennur út á samningi hjá Arsenal í sumar og ætti því að vera falur fyrir lágt verð.