„Við erum ekki ánægðir, Newcastle vann fyrir þessum sigri en það vantaði kjark í okkur. Ég veit að við erum nógu góðir,“ sagði svekktur Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Everton, eftir óvænt 2:0-tap gegn Newcastle á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Everton hefur verið á ágætu skriði undanfarið en Newcastle var aftur á móti búið að tapa fimm deildarleikjum í röð. „Næsti leikur er tækifæri til að finna okkar rétta hugarfar aftur, ég er ótrúlega svekktur með daginn í dag en ég get ekki gleymt því að liðið hefur staðið sig vel undanfarið,“ bætti Ítalinn við en hann sagði nýlega að þetta Evertonlið ætti að berjast um meistaradeildarsæti.