„Það gengur vel og við viljum halda því gangandi, það koma alltaf tímabil þar sem hlutirnir falla með þér,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson í viðtali fyrir leik Everton gegn Newcastle í hádegisleik ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag. Íslenski landsliðsmaðurinn nær stórum áfanga á atvinnumannsferlinum í dag.
Everton hefur unnið þrjá af síðustu fimm deildarleikjum sínum og mætir Newcastle, liði sem hefur tapað fimm í röð. Gylfi var þó fljótur að benda á að allt gæti gerst í úrvalsdeildinni. „Það eru engir auðveldir leikir, við bjuggumst við að Manchester United myndi vinna gegn Sheffield United og Liverpool gegn Burnley. Við þurfum að spila okkar besta leik til að vinna.“
Gylfi er í byrjunarliði Everton og mun því leika sinn 300. leik í ensku úrvalsdeildinni. Hann spilaði 58 leiki fyrir Tottenham, 124 fyrir Swansea og nú 118 fyrir Everton.