United þorir ekki að vera í titilbaráttu

Roy Keane var ósáttur við sitt gamla lið í kvöld.
Roy Keane var ósáttur við sitt gamla lið í kvöld. AFP

Roy Keane, fyrrverandi fyrirliði Manchester United, gagnrýndi liðið eftir markalausa jafnteflið við Arsenal á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. 

United fékk bestu færin í leiknum en Edinson Cavani fór illa með tvö dauðafæri í seinni hálfleik og því fór sem fór. Keane var ekki sáttur við aðeins eitt stig þar sem Bukayo Saka, Pierre-Emerick Aubameyang og Kieren Tierney léku ekki með Arsenal í leiknum.

„Ég klóra mér í hausnum yfir United,“ sagði Keane á Sky Sports. „Ég hef áhyggjur af þeim þar sem þeir trúðu ekki að þeir gætu unnið í kvöld. Við erum að tala um United og það vantaði leikmenn hjá Arsenal. Það vantaði ákafa, gæði og vilja til að vinna leikinn. Arsenal átti skilið jafntefli,“ sagði Keane.

United var í toppsætinu á dögunum en eitt stig í tveimur leikjum gegn Sheffield United og Arsenal hefur gert það að verkum að Manchester City situr nú í toppsætinu, fjórum stigum fyrir ofan granna sína.

„Þeir voru allt í einu komnir í toppsætið en um leið og þeir voru komnir þangað urðu leikmenn hræddir við áskorunina. Þeir eru ekki tilbúnir,“ sagði Írinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert