Bamford reyndist ofjarl Leicester

Patrick Bamfrod fagnar stórglæsilegu marki sínu í dag.
Patrick Bamfrod fagnar stórglæsilegu marki sínu í dag. AFP

Leeds vann frábæran 3:1 útisigur gegn Leicester City í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Patrick Bamford átti frábæran leik og skoraði eitt mark og lagði upp hin tvö.

Leikurinn fór fjörlega af stað og tók Leicester forystuna á 13. mínútu. Harvey Barnes átti þá góðan sprett í gegnum miðjuna, gaf boltann til hliðar á James Maddison, fékk hann aftur frá Maddison og tók laglega snertingu áður en hann setti boltann snyrtilega fram hjá Illan Meslier í marki Leeds.

Aðeins tveimur mínútum síðar var Leeds búið að jafna metin. Luke Ayling fann þá Patrick Bamford rétt fyrir utan teig, Bamford átti frábæra utanfótar stungusendingu á Stuart Dallas sem kom í góðu hlaupi inn í teiginn og kláraði örugglega í fjærhornið.

Skömmu síðar, á 20. mínútu, héldu leikmenn Leicester að þeir væru aftur komnir í forystu þegar Ayoze Pérez skoraði. Maddison átti þá skot í varnarmann og þaðan barst boltinn til Ayoze sem kom boltanum í netið en hann var réttilega dæmdur rangstæður.

Eftir rúmlega hálftíma leik skoraði Leeds, en það mark var sömuleiðis réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Bamford hafði þá náð skalla af stuttu færi eftir hornspyrnu, Schmeichel varði skallann og Klich fylgdi á eftir og skoraði en var fyrir innan þegar Bamford skallaði boltann.

Liðin héldu áfram að skiptast á því að fá góð færi en ekki var meira skorað í fyrri hálfleiknum og staðan því jöfn, 1:1, þegar flautað var til leikhlés.

Síðari hálfleikurinn var öllu rólegri til að byrja með, eða allt þar til Bamford kom Leeds yfir á 70. mínútu með stórglæsilegu marki. Hann fékk þá stungusendingu frá Raphinha, lagði boltann fyrir sig og negldi honum upp í samskeytin fjær.

Eftir þetta færðist fjör í leikinn á ný og Leicester fékk fjölda góðra tækifæra til þess að jafna metin. Besta færið fékk Jonny Evans á 75. mínútu þegar Caglar Söyuncu átti hörkuskalla sem stefndi fram hjá. Evans var hálfan metra frá markinu og náði að setja löppina í boltann en skot hans fór rétt fram hjá.

Á 84. mínútu gerði Leeds svo út um leikinn. Leicester tók þá aukaspyrnu, Leeds vann boltann og Mateusz Klich sendi boltann inn fyrir þar sem Bamford hafði skyndilega allan vallarhelming Leicester út af fyrir sig. Bamford lék með boltann í átt að markinu, Harrison kom í hlaupið honum til stuðnings og fékk þversendingu frá Bamford á markteig og gat ekki annað en skorað, 1:3.

Það urðu lokatölur og afar sterkur útisigur Leeds staðreynd. Leeds fer með sigrinum upp í 10. sæti deildarinnar með 32 stig eftir 20 leiki.

Leicester heldur 3. sætinu, í það minnsta um sinn. Liðið er með 39 stig eftir 21 leik.

Marc Albrighton í baráttunni við Ezgjan Alioski.
Marc Albrighton í baráttunni við Ezgjan Alioski. AFP
James Maddison og Harvey Barnes fagna marki þess síðarnefnda í …
James Maddison og Harvey Barnes fagna marki þess síðarnefnda í dag. AFP
Leicester 1:3 Leeds opna loka
93. mín. Leicester fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert